Annar miðnæturskjálfti

Horft í átt að Keili frá höfuðborgarsvæðinu.
Horft í átt að Keili frá höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Árni Sæberg

Snarpur jarðskjálfti skók Reykjanesskagann upp úr miðnætti, eða klukkan 00.08.

Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að skjálftinn hafi verið 3,2 að stærð samkvæmt mælingum.

Hann var því ekki jafn kröftugur og skjálftinn sem reið yfir Reykjanesskagann um svipað leyti aðfaranótt sunnudags, en sá var af stærðinni 4,7.

Seinni skjálfti fannst í Borgarnesi

Skjálftinn fannst samt sem áður víða á höfuðborgarsvæðinu og ekkert útlit er fyrir að yfirstandandi jarðskjálftahrina sé í rénun.

Upptök hans voru við Trölladyngju, á 4,2 kílómetra dýpi.

Um tuttugu mínútum síðar reið annar skjálfti yfir, en hans varð einnig vart á höfuðborgarsvæðinu.

Benda mælingar til þess að sá hafi verið öllu kröftugri, eða 3,5 að stærð. Fannst hann enda einnig í Borgarnesi.

Öflugri skjálfti úti í hafi

Enn einn og öflugri skjálfti varð í kjölfar þessara tveggja, að þessu sinni úti í hafi eða tæpa 9 km vestur af Reykjanestá. Mældist sá 3,6 að stærð, samkvæmt gögnum Veðurstofunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert