Guðmundur Ingi stefnir á 1. sætið

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Guðmundur Ingi Guðbrandsson hefur ákveðið að sækjast eftir 1. sæti á lista Vinstri grænna í Suðvesturkjördæmi í kosningunum í haust. Hann segist hafa fylgt VG að málum frá upphafi, ekki síst vegna áherslu á umhverfis- og náttúruvernd, mannréttindi og réttlátara samfélag. Guðmundur Ingi er umhverfisráðherra og er varaformaður VG. 

„Það eru stór verkefni framundan í íslensku samfélagi sem mig langar að taka þátt í á vettvangi stjórnmálanna. Vinna þarf bug á atvinnuleysi með fjölbreyttum úrræðum og koma í veg fyrir að fólk festist í langvarandi atvinnuleysi. Uppbyggingin í kjölfar kórónuveirufaraldursins þarf að vera með grænum formerkjum og horfa til jöfnuðar og réttlætis.  

Stóra áskorun okkar tíma er loftslagsváin. Sem ráðherra hef ég lagt áherslu á að koma loftslagsmálunum aftur á kortið með fyrstu fjármögnuðu aðgerðaáætlun stjórnvalda og vinnu að kolefnishlutleysi 2040. Stjórnvöld hafa nýlega kynnt hert markmið í loftslagsmálum og á næsta kjörtímabili er mikilvægt að gera enn betur og hægt að byggja á þeim góða grunni sem nú hefur verið lagður.

Á kjörtímabilinu hafa yfir 10 svæði verið friðlýst þar með talin Jökulsá á Fjöllum, Goðafoss og Geysir. Frumvarp mitt um Hálendisþjóðgarð liggur fyrir Alþingi og byggist á vinnu þverpólitískrar nefndar. Landvarsla hefur verið efld um allt land og innviðir til verndar náttúru og menningarminjum að sama skapi. Framtíðarsýn mín er sú að Ísland verði land náttúruverndar - þjóðgarðalandið Ísland - þar sem vernd og sjálfbær nýting auðlinda er leiðarstefið. Það mun auka jákvæða ímynd landsins og laða að fólk til að búa og heimsækja landið okkar.

Ég vil sjá Ísland þróast sem réttlátara samfélag þar sem efnameira fólk leggur meira til samfélagsins og við búum barnafjölskyldum, öryrkjum og eldri borgurum áhyggjulausara líf. Við þurfum að byggja á þeim skrefum sem stigin hafa verið á þessu kjörtímabili, eins og með þrepaskiptu skattkerfi, lengingu fæðingarorlofs og nýjum úrræðum í húsnæðismálum. Jafnréttis- og mannréttindamál eru mér einnig að sjálfsögðu ofarlega í huga, ekki síst kvenfrelsi og réttindi hinsegin fólks.

Ég hlakka til að pólitískrar umræðu um hvernig við getum gert samfélagið okkar og umheiminn allan að betri stað. Það er verkefnið framundan,“ segir í framboðstilkynningu Guðmundar Inga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert