Rúmlega 2.000 skjálftar í dag

Jarðskjálftavirknin er mest í kringum Keili og Fagradalsfjall.
Jarðskjálftavirknin er mest í kringum Keili og Fagradalsfjall. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jarðskjálftahrinan á milli Keilis og Fagradalsfjalls á Reykjanesi hefur haldið áfram í dag með rúmlega 2.000 skjálftum yfir daginn. 

Ólíkt fyrri dögum hafa ekki orðið stórir skjálftar eftir hádegi, sem náttúruvársérfræðingurinn Einar Bessi Gestsson segir í samtali við mbl.is að sé þó ekki nauðsynlega til marks um að hrinan sé í rénun.

Það þekkist að rólegri lotur komi inn á milli en að hrinan geti svo tekið við sér á ný.

Tvennt í stöðunni ef gert er ráð fyrir kvikuinnskoti 

Þar sem gert er ráð fyrir að kvikuinnskot hafi orðið í jarðskorpu á svæðinu er tvennt sem getur gerst í framhaldinu:

Að kvikan stoppi og storkni eða þá að hún brjóti sér að lokum leið upp á yfirborðið og endi þannig í eldgosi. Ógerningur er að segja til um hvort gerist en algengara er að kvikan storkni og verði ekki að gosi, að sögn Einars.

Nýjar upplýsingar um frekari landbreytingar vegna kviku fást ekki fyrr en með nýjum gervihnattarmyndum sem eru teknar annað kvöld en niðurstöður úr þeim liggja líklega ekki fyrir fyrr en morguninn þar á eftir. Þangað til er ólíklegt að stóra myndin breytist en skjálftarnir gefa þó áfram góða vísbendingu um ástandið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert