„Við hefðum getað greint öll sýnin“

Karl G. Kristinsson segir að hægt hafi verið að greina …
Karl G. Kristinsson segir að hægt hafi verið að greina öll sýnin hér á landi. mbl.is/Árni Sæberg

„Við hefðum getað greint öll sýnin,“ segir Karl G. Kristinsson, yf­ir­lækn­ir á sýkla- og veiru­fræðideild Land­spít­al­ans, í samtali við Læknablaðið og vísar þar til greiningar á leghálssýnum. Heilsugæslan samdi við danska sjúkrahúsið Hvidovre um að greina krabbameinssýni úr íslenskum konum.

„Við hefðum getað greint öll sýnin sem biðu, og auk þess tekið að okkur allar HPV-skimanirnar á Íslandi með nýja afkastamikla tækinu okkar. Ekki nein spurning um skort á öryggi og gæðum, enda fékk deildin faggildingu frá SWEDAC á síðasta ári,“ segir Karl í viðtalinu við Læknablaðið.

Hann segir að þetta hafi komið fram á óformlegum fundi með heilsugæslunni í haust. Ekki hafi verið haft samband við hann aftur. „Og við sáum fram á að geta boðið ódýrari rannsókn með nýja tækinu.“ Hann bendir á að deildin hafi sinnt HPV-greiningum fyrir Krabbameinsfélagið síðustu tvö árin, eða þar til heilsugæslan tók við.

Læknablaðið sendi fyrirspurn á Ríkiskaup vegna málsins. Í svari Ríkiskaupa segir að Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefði átt að setja þjónustuna í útboð næmi upphæðin meira en rétt tæpum 98 milljónum króna. Kærunefnd útboðsmála geti lýst samning óvirkan eða beitt öðrum viðurlögum sé upphæðin umfram þá fjárhæð. Heilsugæslan hafi ekki leitað til Ríkiskaupa vegna þessarar þjónustu eða hugsanlegs útboðs á henni.

Viðtalið í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert