Bílar og neyðarkassar til taks

Jarðvísindamenn að störfum í Krýsuvík síðastliðinn föstudag.
Jarðvísindamenn að störfum í Krýsuvík síðastliðinn föstudag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Starfsmaður verður á vaktinni á meðferðarheimilinu í Krýsuvík í nótt ef til eldgoss kemur á Reykjanesskaga. Bílar eru einnig til ráðstöfunar ásamt neyðarkössum.

Þetta segir Þórdís Jóhannsdóttir Wathne, framkvæmdastjóri Krýsuvíkursamtakanna, spurð út í viðbrögð við mögulegu eldgosi.

Í neyðarkössunum eru meðal annars teppi, þurrmatur og vasaljós.

Hún segir meðferðarheimilið vera í um tíu kílómetra fjarlægð frá hættusvæðinu, sem sé svipuð og fjarlægð svæðisins frá Grindavík.  

„Okkur finnst mikilvægast að halda ró meðal okkar skjólstæðinga. Við fylgjumst vel með fréttum og þeim ráðleggingum sem koma frá Almannavörnum,“ segir Þórdís, en um 20 manns eru í meðferð á heimilinu.

Hún segir ólíklegt að fólkið þurfi að færa sig um set, enda hafi ekki verið talað um að sprengigos gæti orðið heldur hraungos. Ógn eigi ekki stafa af því síðarnefnda. Ef nauðsyn krefur verður aftur á móti hægt að flytja fólkið í burtu í bílunum sem eru til ráðstöfunar.  

„Sumir hafa áhyggjur og aðrir ekki,“ segir hún, spurð út í líðan fólksins í óvissuástandinu sem núna ríkir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert