Reykjavík verði hjólreiðaborg á heimsmælikvarða

Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi VG, var formaður stýrihóps um endurskoðun aðgerðaáætlunar …
Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi VG, var formaður stýrihóps um endurskoðun aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ný aðgerðaáætlun og loftslagsstefna Reykjavíkurborgar var samþykkt á fundi borgarstjórnar 2. mars. Áætlunin inniheldur fjölda aðgerða sem urðu til eftir víðtækt samráð. Dregnar eru saman 15 meginaðgerðir sem fela í sér samdrátt í kolefnislosun um tæp 300.000 tonn fyrir árið 2030. Reykjavíkurborg stefnir að kolefnishlutleysi árið 2040.

Þetta kemur fram á vef borgarinnar.

„Það er staðreynd að iðnvædd og fjölmenn ríki með sterka innviði losa mest og það bitnar verst á fátækum ríkjum með veika innviði. Það er því ábyrgðarhlutur að við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að ná kolefnishlutleysi fyrir 2040,“ er haft eftir Líf Magnúsdóttur, borgarfulltrúa og formanni stýrihóps.

Hún segir áratug aðgerða runninn upp; að mörgu sé að hyggja og verkefni næstu ára verði viðamikil, fjölbreytt og róttæk. „Ég er ekki í nokkrum vafa um að okkur takist þetta sameiginlega ætlunarverk okkar því Reykjavík er rík af þekkingu, færni, snilli og vilja.“

Auk Lífar voru þær Sigurborg Ósk Haraldsdóttir og Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúar í stýrihópnum um endurskoðun aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum.

Aðgerðaáætluninni er skipt í sex megináherslur en allt eru þetta þættir og viðfangsefni sem telja hvað mest til að ná markmiðum Reykjavíkurborgar um kolefnishlutleysi. Þetta eru:

  • Gönguvæn borg
  • Orkuskipti
  • Heilsueflandi samgöngur
  • Hringrásarhugsun
  • Vistvæn mannvirki
  • Kolefnisbinding

Fimmtán aðgerðir

  1. 15 mínútna hverfi
    Í gegnum hverfisskipulag, endurnýjun hverfiskjarna og fjárfestingu í innviðum verði hverfi borgarinnar gönguvænni og aðgengi að grænum svæðum, útivist og þjónustu tryggt í 15 mínútna göngu- eða hjólafæri.
  2. Græn borgarþróun
    Þróun borgarinnar verði öll innan skilgreindra vaxtarmarka hennar og 80% uppbyggingar íbúðahúsnæðis verði innan þægilegrar fjarlægðar frá borgarlínu.
  3. Orkuskipti alls staðar
    Heildstæð áætlun verði gerð og hrint í framkvæmd um innviði fyrir orkuskipti fyrir einkabíla með hleðslustöðvum í hverfum, atvinnubíla, flutningabíla, í almenningssamgöngum, í höfnum og á sjó.
  4. Hjólreiðaborg á heimsmælikvarða
    Endurskoðuð hjólreiðaáætlun setji sér sem markmið að Reykjavík verði hjólreiðaborg á heimsmælikvarða.
  5. Borgarlína og betri almenningssamgöngur
    Betri og afkastamiklar almenningssamgöngur leiki ásamt þéttingu byggðar lykilhlutverk við að ná markmiðum um breyttar ferðavenjur. Nánari loftslagsmarkmið verði skilgreind fyrir samgöngusáttmála ríkis og SSH.
  6. Urðun verði hætt Mótuð verði heildstæð aðgerðaráætlun um hringrás og endurvinnslu til að styðja við sjálfbærari meðhöndlun úrgangs.
  7. Græn matarstefna
    Matarstefna borgarinnar verði innleidd og efnt til samstarfs um grænan landbúnað á Kjalarnesi.
  8. Grænn byggingariðnaður
    Efnt verði til samstarfs við atvinnulífið um grænni byggingariðnað.
  9. Gas í grjót
    Þekking og lausnir OR og Carbfix verði þróaðar til bindingar koltvísýrings og eftir atvikum annarra gróðurhúsalofttegunda í samvinnu við háskóla og fyrirtæki sem losa mikið.
  10. Endurheimt votlendis
    Verður aukin samkvæmt sérstakri áætlun.
  11. Loftslagsskógar Reykjavíkur
    Loftslagsskógar verði efldir í samvinnu við Skógræktarfélag Reykjavíkur og
    skógræktaráætlun kynnt.
  12. Jarðefnaeldsneyti út árið 2025
    Ekki verði keyptir bílar eða tæki sem ganga fyrir jarðefnaeldneyti á vegum borgarinnar frá og með 2021 og bílum og tækjum sem þegar eru til staðar verði skipt út fyrir árið 2025.
  13. Blágrænar ofanvatnslausnir
    Ný hugsun í veitukerfum með bættri nýtingu vatns og blágrænum ofanvatnslausnum verði regla í nýjum hverfum og við endurnýjun þeirra eldri.
  14. Flóðavarnir verði útivistarsvæði og garðar
    Ráðist verði í eflingu flóðavarna meðfram strandlengjunni þar sem þarf og stefnt að því að úr verði útivistarsvæði, strandgarðar og aðstaða til sjávarbaða á völdum stöðum.
  15.  Samstarf við atvinnulíf
    Áfram verði unnið með Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð og fyrirtækjum undir
    merkjum Loftslagsyfirlýsingar Reykjavíkurborgar og Festu að frekari árangri í öllum greinum atvinnulífs.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert