Sprungugos vart staðið lengur en í viku

Horft í átt að Keili af höfuðborgarsvæðinu.
Horft í átt að Keili af höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Hari

Algengt hraunmagn í sprungugosum á Reykjanesskaga hefur verið í kringum 0,1 rúmkílómetri í hverju einstöku gosi. Hvert þeirra hefur vart staðið lengur en í viku eða svo, stundum þó lengur, en þá með lítilli framleiðslu og hægri framrás helluhrauna. 

Þetta kemur fram í svari Kristjáns Sæmundssonar, jarðfræðings og fyrrverandi deildarstjóra Orkustofnunar, og Magnúsar Á. Sigurgeirssonar jarðfræðings á Vísindavefnum við spurningunni um hversu lengi sprungugos á Reykjanesi gæti staðið yfir.

Í svarinu kemur fram að aðalgosvá á Reykjanesskaga stafi af sprungugosum en hraun frá þeim þekja um fjórðung af flatarmáli skagans.

Lengstu gígaraðirnar eru 10-20 kílómetra langar. Flest hraunin eru innan við 0,2 rúmkílómetrar, en þau stærstu 0,4-0,5 rúmkílómetrar. Lengst hafa þau runnið um 15 kílómetra frá upptökum, mörg hver í sjó fram.

Framleiðslan í gosi mest í upphafi

Þrátt fyrir að hvert gosi hafi vart staðið lengur en í viku eða svo gætu mestu sprungugosin hafa varað nokkrar vikur eða jafnvel mánuði.

Framleiðslan í hverju gosi er ekki jöfn, heldur mest í upphafi og síðan dregur úr, ef til vill með smáfjörkippum. Reikna má með að fyrstu klukkutímana geti hún verið allt að fimmtíufalt meiri en síðasta sólarhringinn.

Sprungugosum fylgja kvikustrókar í byrjun, og gýs þá eftir endilöngu sprungukerfinu. Kvikan sprautast eða frussast upp úr gosrásinni, drifin af gasi sem losnar úr henni á uppleið. Það er að miklu leyti vatnsgufa, en einnig koltvíoxíð, brennisteinstvíoxíð, vetni og fleira. Kvikustrókarnir eru oft 30-100 metra háir, en geta þó orðið mun hærri. Kvikan storknar að hluta til í loftinu og fellur þá sem gjall og klepraslettur kringum gígopið. Smæsta sáldrið, fínt gjall og vikur, getur borist nokkra kílómetra frá upptökum. Á Reykjanesskaga hefur það fundist einn til tvo kílómetra frá gígum. Gasið berst aftur á móti til lofts og myndar bláleita móðu sem liggur yfir gosstöðvunum og nágrenni þeirra,“ kemur fram á vef Vísindavefjarins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert