Hættur geta leynst á snjallheimilum

Það getur reynst dýrkeypt þegar fólk tengir sjálft.
Það getur reynst dýrkeypt þegar fólk tengir sjálft.

Ný tækni hefur verið að ryðja sér rúms sem gerir fólki kleift að fjarstýra tækjum og búnaði á heimilum sínum í gegnum tölvur og síma. Eru slík heimili gjarnan kölluð snjallheimili. „En margt þarf að varast þegar fólk ákveður að búa heimilum sínum slíka tækni,“ segir Helgi Þórður Þórðarson rafvirkjameistari og kennari við Raftækniskólann. Mörg dæmi séu um að fólk kaupi búnað beint af netinu frá Asíu og setji hann upp sjálft. Þessi búnaður sé í mörgum tilfellum ekki vottaður og geti skapað tjón.

„Þar sem um er að ræða rafmagnstengda hluti tel ég að fólk eigi að fá fagmann í verkið sem teikni upp breytingar og skili þeim inn svo allt sé samkvæmt lögum og reglum,“ segir Helgi. Það sé stórhættulegt þegar fólk sé sjálft, án þess að hafa á því þekkingu, að setja ýmsa skynjara í loftdósir, rofadósir og rafmagnstöflur. Helgi segir að fólk eigi að kaupa búnað sem er framleiddur af viðurkenndum aðila og samkvæmt staðli og vottaður.

Hann segir að öll snjalltæki noti ýmiskonar samskiptatækni til að senda frá sér merki og taka á móti skipunum. Samskiptin fara fram á fyrirframákveðnu tungumáli sem tækið tjáir sig á og skilur.

Helgi Þórður Þórðarson.
Helgi Þórður Þórðarson.

„En snjallheimurinn í dag einkennist af miklu flækjustigi, miklu framboði, og flestir framleiðendur bjóða upp á eyjulausnir sérsniðnar að ákveðnum þörfum. Þannig er t.d. öryggiskerfi ekki í stakk búið að stjórna ljósum eða stýra hitanum og öfugt. Til að ná utan um allt þarf að innleiða mörg mismunandi kerfi og búnað sem tala oftast ekki saman, því getur flækjustigið verið mikið,“ segir Helgi. Tækin sem eru hönnuð og framleidd í dag séu í auknum mæli með opna gátt sem geri notanda kleift að fá allar upplýsingar úr tækjum í gegnum einhvers konar app. Þannig geti fólk fylgst með og stýrt tækjunum hvenær og hvar sem er.

Helgi spáir því að snjalltækni eigi eftir að ryðja sér til rúms í auknum mæli á næstu árum og vill hvetja fólk til að sýna varkárni. Annars geti illa farið og fólk setið uppi með tjón á húsum sínum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert