Teymi sérfræðinga sett saman

Fossvogsskóli.
Fossvogsskóli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Teymi sérfræðinga frá verkfræðistofunni Verkís, umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar og foreldrafélagi Fossvogsskóla hefur verið sett saman vegna myglu í skólanum.

Þetta kemur fram í tilkynningu til foreldra barna í skólanum eftir fund sem var haldinn í skólaráði síðdegis í dag.

Teymið mun rýna allar sýnatökur, framkvæmdir og niðurstöður sem þegar liggja fyrir. Í framhaldinu mun það kortleggja frekari þörf á sýnatökum og meta og leggja til eftir atvikum aðgerðir í húsnæði skólans til að tryggja til fullnustu heilsusamlegt umhverfi fyrir börn og starfsfólk skólans.

Teymið mun setja upp tímasetta verkáætlun varðandi þrýstiprófun á rakasperrum í Vesturlandi, einni byggingu skólans, ásamt verkáætlun fyrir framkvæmdir í tilteknum rýmum í Austurlandi og Meginlandi sem þegar liggur fyrir að þurfi að fara í.

Skóla- og frístundasvið borgarinnar mun standa fyrir könnun á líðan starfsmanna og barna og verður óskað eftir því að foreldrar svari könnuninni með börnum sínum og/eða fyrir þeirra hönd.

Fulltrúi skóla- og frístundasviðs hefur einnig átt samtal við foreldra þeirra barna sem upplýsingar lágu fyrir um 17. febrúar að fyndu fyrir einkennum af völdum mengunar af völdum lélegra loftgæða í skólahúsnæðinu.

Heilbrigðisstarfsmenn fylgist með börnum

Reykjavíkurborg hefur sömuleiðis átt í viðræðum við heilbrigðisstarfsmenn um að fylgjast með þeim hópi barna sem hefur fundið fyrir slappleika og óþægindum í húsnæðinu, með það fyrir augum að skapa skýran farveg fyrir faglegt mat á heilsu viðkomandi barna.

Þetta kemur til viðbótar við það samtal sem þegar hefur farið fram á milli starfsmanns skóla- og frístundasviðs og foreldra viðkomandi barna.

Upplýsingar verða veittar reglulega um framgang framkvæmda í húsnæðismálum skólans út þetta skólaár. Skoðað verður sérstaklega hvernig komið verður til móts við náms- og félagslegar þarfir þeirra barna sem finna fyrir einkennum í skólahúsnæðinu.

Boðað verður til almenns upplýsingafundar með foreldrum í næstu viku, að því er segir í tilkynningunni.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert