Lokað á Kjalarnesi vegna slæms skyggnis

Mynd úr safni frá Kjalarnesi.
Mynd úr safni frá Kjalarnesi. mbl.is/Sigurður Ægisson

Lokað er um óákveðinn tíma á Kjalarnesi vegna slæms skyggnis.

Að sögn starfsmanns Vegagerðarinnar komu þær upplýsingar frá lögreglunni „að það sæist nákvæmlega ekki neitt“ á svæðinu.

Bílstjórar fengu aðstoð 

Fyrr í dag var veginum um Kjalarnes lokað vegna umferðaróhapps og var hann ekki opnaður aftur eftir að viðbragðsaðilar luku aðgerðum á vettvangi. Að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu var ákveðið að loka veginum eftir að tvö umferðaróhöpp höfðu orðið þar. Slökkviliðið þurfti jafnframt að aðstoða bílstjóra við að komast af Kjalarnesi vegna vinds og skafrennings. Mjög hvasst var á svæðinu, hálka og lítið skyggni.

Hægt er að fara hjáleið um Mosfellsheiði, Kjósarskarð og Hvalfjörð en þar er vetrarfærð og lítið skyggni.

Sterkur hliðarvindur er á Mosfellsheiði og er það varhugavert fyrir ökutæki sem taka á sig mikinn vind, að því er segir á vef Vegagerðarinnar.

Að sögn Vegagerðarinnar er veðrið að lagast fyrir austan. Búið er að opna veginn um Mývatns- og Möðrudalsöræfi en veðrið átti að lagast upp úr hádegi. Vegurinn um Holtavörðuheiði er lokaður og óljóst er hvenær hann opnar á nýjan leik. Hægt er að fara í staðinn um Bröttubrekku og Laxárdalsheiði en ferðaveðrið er ekki gott.

Einnig er lokað á Dynjandisheiði og Þröskuldum á Vestfjörðum. Snjókoma og skafrenningur er á Steingrímsfjarðarheiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert