Flutningabílar þvera veg

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. mbl.is/Hari

Þjóðvegur 1 við Hvammstangaafleggjara er lokaður vegna slæms skyggnis og flutningabíla sem þvera veg. Vegna veðurs er ekki hægt að losa flutningabílana fyrr en veður gengur niður. 

Þessi frétt hefur verið uppfærð

Það er vetrarfærð í flestum landshlutum og erfið færð víða á norðanverðu landinu í morgunsárið.

Hálka er á Hellisheiði og í Þrengslum og nokkrum öðrum leiðum á Suðvesturlandi en mikið til greiðfært á láglendi.

Holtavörðuheiði er opin en hálka og skafrenningur er á heiðinni. Þæfingsfærð er í Ísafjarðardjúpi og unnið að mokstri en hálka eða hálkublettir og skafrenningur á flestum öðrum vegum Vestfjarða. Vegurinn um Þröskulda, Klettsháls og Dynjandisheiði eru lokaðir vegna veðurs. Búið er að opna veginn um Súðavíkurhlíð og þar er hálka. Óvissustig vegna snjóflóðahættu er í gildi. Vegurinn um Steingrímsfjarðarheiði er ófær vegna veðurs.

Þæfingsfærð er víða í Eyjafirði en annars hálka eða snjóþekja víðast hvar á vegum á Norðurlandi, skafrenningur og slæmt skyggni.

Vegurinn um Þverárfjall er ófær vegna veðurs. Siglufjarðarvegur er lokaður vegna snjóflóðahættu. Hættustig er í gildi. Ófært er á Öxnadalsheiði en unnið að mokstri. Óvissustig vegna snjóflóðahættu er í gildi á Ólafsfjarðarmúla. Vegurinn um Víkurskarð er lokaður vegna snjóa.

Víðast hvar snjóþekja og éljagangur víða á Norðausturlandi. Vegurinn um Hólasand er ófær vegna snjóa og hið sama gildir um Möðrudalsöræfi. Unnið er að mokstri. Þungfært er á Fljótsheiði og skafrenningur. Vegurinn um Mývatnsöræfi er ófær vegna snjóa. Unnið er að mokstri. Hálka, hálkublettir eða snjóþekja á vegum á Austurlandi. Hreindýrahjarðir eru víða við veg og hafa m.a. sést á Fagradal, við álverið á Reyðarfirði, í Álftafirði og Lóni. Vegfarendur er beðnir um að sýna aðgát. Þungfært er á Fjarðarheiði og unnið að mokstri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert