Óveðursútkall vatt upp á sig

Töluvert fannfergi er á Hvammstanga. Mynd úr safni.
Töluvert fannfergi er á Hvammstanga. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vetrarfærð er í flestum landshlutum og skafrenningur víða á norðan- og austanverðu landinu. Búið er að opna þjóðveg 1 við Hvammstanga­af­leggj­ara en honum var lokað í gærkvöldi vegna vonskuveðurs og flutningabílar þveruðu veginn. Flutningabíll er fastur á Öxnadalsheiði og komast minni bílar fram hjá en ekki stærri.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að björgunarsveitir hafi verið að störfum við Hvammstangaafleggjara frá um sjö í gærkvöldi til klukkan tvö í nótt vegna veðurs.

Útkallið hófst að hans sögn sem hefðbundið óveðursútkall en þrír til fjórir bílar sátu fastir. Síðan vatt það upp á sig þegar flutningabílar þveruðu veginn sem gerði það að verkum að aðrir bílar komust ekki fram hjá þeim.

Davíð segir að á endanum hafi tekist að losa þá bíla sem festust en einhverjir voru ferjaðir í fjöldahjálparstöð sem opnuð var á Laugarbakka.

Siglufjarðarvegur er lokaður vegna snjóflóðahættu. Mynd úr safni.
Siglufjarðarvegur er lokaður vegna snjóflóðahættu. Mynd úr safni. mbl.is/Sigurður Ægisson

Vegurinn um Þverárfjall er ófær og er Siglufjarðarvegur lokaður vegna snjóflóðahættu. Óvissustig vegna snjóflóðahættu er í gildi á Ólafsfjarðarmúla.

Þæfingsfærð er í Ísafjarðardjúpi og unnið að mokstri. Vegurinn um Þröskulda er lokaður vegna veðurs og óvissustig vegna snjóflóðahættu er í gildi í Súðavíkurhlíð.

Lokað er yfir Fjarðarheiði og beðið með mokstur í bili, að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert