Ótækt að fara þessa leið

Reykjavíkurflugvöllur
Reykjavíkurflugvöllur mbl.is/Árni Sæberg

Formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar er hissa á frumvarpi samgönguráðherra um heildarendurskoðun laga um loftferðir.

Frumvarpið var lagt fram í síðustu viku og er til meðferðar hjá umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis. Ef það nær fram að ganga fær ráðherra heimild til að setja skipulagsreglur fyrir flugvelli sem munu ganga framar en svæðis-, aðal- og deiliskipulag sveitarfélaga. Verði frumvarpið að lögum yrði Reykjavíkurborg því í raun svipt skipulagsvaldi á Reykjavíkurflugvell.

„Ég held að það sé ótækt að ætla að fara þessa leið,“ segir Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi og formaður samgöngu- og skipulagsráðs, og segir það ekki góða leið til að styrkja samgöngur í landinu að ráðherra geti sjálfur sett reglur sem trompi svæðis-, aðal- og deiliskipulag.

„Ég er svolítið hissa á þessu út af því að sveitarfélögin hafa verið samtaka um að sveitarfélögin hafi skipulagsvaldið. Um það hefur alltaf ríkt algjör einhugur, sama hvort það á við um Akureyri, Egilsstaði eða Reykjavík,“ segir hún.

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir.
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir. mbl.is

Ekki komið til móts við athugasemdir

Reykjavíkurborg sendi inn umsögn í samráðsgátt vegna frumvarpsins á sínum tíma og fór borgin fram á að þessu yrði breytt. Sigurborg segir að ekki hafi verið komið nægilega til móts við athugasemdirnar sem voru lagðar fram.

Hún segir að rýna þurfi í málið með tilliti til sveitarstjórnarlaga og stjórnarskrárinnar varðandi lögmæti þess sem kemur fram í frumvarpinu, enda sé sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga bundinn í lög.

„Ég held að þetta sé skref aftur á bak. Aðalskipulag er ofboðslega faglegt og stórt skjal sem öll sveitarfélög á landinu hafa til að byggja upp sitt svæði,“ segir hún og telur að ekki eigi að trompa það skipulag með nýjum lögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert