„Nær en ég bjóst við“

Fólk streymir út úr Grindavík og austur Suðurstrandarveg í átt að eldgosinu í von um að berja það augum í návígi, að sögn Rakelar Lilju Halldórsdóttur, íbúa á staðnum. Hún sér gosið út um gluggann á heimili sínu við Austurveg 18 en óttast ekki að byggðinni stafi hætta af því.

Rakel kveðst hafa séð gosið vel þegar það hófst í kvöld, eins og sést á myndskeiði frá henni hér að ofan, en telur mögulegt að nú sé reykur eða aska farin að skyggja á bjarmann.

Bæjarbúar eru órólegir. „Fólk er alveg að fara á límingunum hérna. Það er stanslaus umferð fram og til baka,“ segir Rakel í samtali við mbl.is

Rauður bjarmi sést fyrir miðri mynd en sást betur fyrr …
Rauður bjarmi sést fyrir miðri mynd en sást betur fyrr í kvöld en nú. Stöðug umferð er við þessa götu. Ljósmynd/Rakel Lilja

Staðan er þannig þrátt fyrir að skilaboð almannavarna til íbúa á svæðinu séu þau að fólk eigi að halda kyrru fyrir heima þar til það fær fyrirmæli um annað. Rakel segir að þessu fylgi greinilega ekki allir samviskusamlega. 

„Fólk er greinilega mjög forvitið og þessi umferð er fólk sem er að koma að skoða en ekki flýja bæinn. Þetta eru meira bara einhverjir spennufíklar,“ segir Rakel.

Bjóst ekki við að sjá þetta út um gluggann

Gosið virðist ekki ógna byggð en Rakel sér rauðan bjarma birtast og hverfa á víxl ögn austan við Fagradalsfjall. „Þetta virðist vera nær en ég bjóst við að þetta yrði. Ég bjóst ekki við að sjá þetta út um gluggann,“ segir Rakel.

200 metra sprungan er 2,6 km frá Suðurstrandarvegi, að sögn …
200 metra sprungan er 2,6 km frá Suðurstrandarvegi, að sögn Veðurstofunnar.

Hún kveðst róleg yfir atburðarásinni, eins og hún hefur verið hingað til yfir jarðhræringunum, en segir þó ívið óþægilegra nú að börnin séu í gistingu hjá afa sínum, enda sé tilhneigingin að vilja hafa þau hjá sér þegar svona stendur á.

Gosið á samkvæmt nýjustu upplýsingum upptök sín í Geldingadal, sem er rétt austan Fagradalsfjalls. Rakel staðfestir að það virðist ekki vera beinlínis staðsett í fjallinu, heldur aðeins fjær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert