Stór skref stigin í orkuskiptum í Grímsey

Stór skref verða á næstu mánuðum stigin varðandi orkuskipti íGrímsey …
Stór skref verða á næstu mánuðum stigin varðandi orkuskipti íGrímsey en fyrirhugað er að setja m.a. upp vindmyllur og sólarorkuver. Ljósmynd/Auðunn Níelsson

„Grímsey er ekki tengd við raforkukerfi landsins og þar er heldur ekki heitt vatn frá náttúrunnar hendi. Þess vegna hefur húshitun og raforkuframleiðsla þar byggst að mestu leyti á að brenna olíu. Við sjáum tækifæri núna til að breyta þessu og þá getur Grímsey vonandi í náinni framtíð orðið að fyrirmynd að vistvænu samfélagi við krefjandi aðstæður á norðurslóðum. Við finnum nú þegar fyrir áhuga á þeirri hugmyndafræði, til dæmis frá Bandaríkjunum.“

Þetta segir Andri Teitsson, framkvæmdastjóri Fallorku. Stór skref verða á næstu mánuðum stigin varðandi orkuskipti í Grímsey en fyrirhugað er að setja m.a. upp vindmyllur og sólarorkuver. Fallorka annast verkefnið í samstarfi við Vistorku og Orkusetur með stuðningi úr Evrópuverkefninu SMARTrenew og Orkusjóði.

Orkuframleiðsla og -notkun í Grímsey byggist á ósjálfbæru jarðefnaeldsneyti og er heildarnotkun um 400 þúsund lítrar á ári, enda olían bæði notuð til raforkuframleiðslu og húshitunar. Ætla má að losun vegna orkunotkunar í Grímsey nemi um 1.000 CO2 á ári. Þar við bætist eldsneytisnotkun fyrirtækja og fiskibáta.

Bæði íslenska ríkið og Akureyrarbær hafa sett sér metnaðarfull áform um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og í nýrri orkustefnu landsins er stefnt að því að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2050. Orkuskipti í Grímsey eru hluti af nauðsynlegum aðgerðum til að ná þessum markmiðum, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert