Gosið í erlendum miðlum: „Allir í bílana“

Lögreglan lokaði Reykjanesbraut um tíma af öryggisástæðum, en hún hefur …
Lögreglan lokaði Reykjanesbraut um tíma af öryggisástæðum, en hún hefur nú verið opnuð á nýjan leik. AFP

Erlendir miðlar sýna eldgosinu í Geldingadal mikinn áhuga. Fjölmiðlar í Evrópu og Bandaríkjunum hafa sagt frá gosinu og ljóst að þeim er í fersku minni gosið í Eyjafjallajökli fyrir áratug og áhrif þess á flugumferð.

Eins og áður hefur komið fram er þó gert ráð fyrir að áhrifin af gosinu við Fagradalsfjall á flugumferð verði minni háttar.

Breska ríkisútvarpið greinir frá því að eftir yfir 50.000 jarðskjálfta á síðustu þremur vikum sé eldgos nú hafið. Ekki sé búist við að gosið við Fagradalsfjall spúi jafnmikilli ösku og gosið í Eyjafjallajökli og því ætti það ekki að skemma fyrir flugumferð.

BBC birtir í leiðinni stutt fréttaskýringarmyndband sem tekið var eftir að skjálftahrinan á Reykjanesi hófst en þar er meðal annars rætt við Helgu Kristínu Torfadóttur jarðfræðing sem jafnframt er dóttir Ölmu Möller landlæknis.

Ekki er þó víst að allir miðlar séu meðvitaðir um að flugi stafi ekki sérstök hætta af gosinu. Norrænu ríkismiðlarnir segja allir frá því að flugumferð hafi verið bönnuð á Keflavíkurflugvelli, sem vissulega var gert, en ekki fylgir sögunni að sú lokun hafi aðeins staðið í 40 mínútur og verið hluti af verklagsreglum, eins og Hjördís Guðmundsdóttir samskiptastjóri almannavarna greindi frá í samtali við mbl.is.

Sænska ríkisútvarpið greinir frá því að bjarmi lýsi upp himininn í kringum gossvæðið og segir frá ráðleggingum almannavarna um að fólk haldi sig fjarri gosstaðnum.

Í danska ríkisútvarpinu er sagt frá því að óvíst sé hversu alvarlegt eldgosið sé, en bent á að eldgosið sé ekki óvænt. Áður hefur verið fjallað um jarðhræringar á Reykjanesi í dönskum fjölmiðlum.

Fréttaveitan Reuters ræðir við Rannveigu Guðmundsdóttur Grindvíking sem lýsir glóandi himni út um gluggann sinn. „Allir hérna eru á leið í bílana sína til að keyra nær,“ segir hún. Almannavarnir hafa ráðið fólki frá því að ferðast að óþörfu í átt að gossvæðinu en ljóst að margir hafa látið þau tilmæli sem vind um eyru þjóta.

Breska blaðið Guardian gerir málinu einnig góð skil á vef sínum og bendir á að ekki hafi gosið í eldstöðvakerfinu á Reykjanesi í 800 ár eða síðan um 1240.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert