Fóru snemma af ótta við gasmengun

Fjóla Helgadóttir og Evelyn Hermannsdóttir ræddu við blaðamann mbl.is á …
Fjóla Helgadóttir og Evelyn Hermannsdóttir ræddu við blaðamann mbl.is á Reykjanesskaga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjöldi fólks hefur lagt leið sína að eldgosinu í Geldingadal í morgun en vegna óhagstæðrar veðurspár er gert ráð fyrir því að svæðið verði lokað fyrir umferð almennings seinni part dagsins.

Vegfarendur sem blaðamaður mbl.is ræddi við í hádeginu hlökkuðu mikið til að sjá sjónarspilið sem eldgosið er.

„Við búumst við eldgosi,“ sögðu hlæjandi Fjóla Helgadóttir og Evelyn Hermannsdóttir. 

Þær eru mjög spenntar að sjá gosið og segjast eins vel útbúnar til göngunnar og mögulegt er. 

Fjóla og Evelyn óttast gasmengun á svæðinu og eru af þeim sökum snemma á ferðinni.

Eygló Kristjánsdóttir er vel nestuð og klár í slaginn.
Eygló Kristjánsdóttir er vel nestuð og klár í slaginn. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég býst við einhverju dásamlegu, alveg magnaðri upplifun,“ segir Eygló Kristjánsdóttir.

Hún er sjálf á leið að eldstöðvunum í fyrsta skipti en þekkir fólk sem hefur farið þangað og segir upplifunina ógleymanlega.

„Ég er mjög vel útbúin og með nesti,“ segir Eygló sem bætir því við að hún sé vön gönguferðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert