Ræddu sóttvarnareglur á gosstöðvunum

Fjallað var um sóttvarnareglur á gosstöðvunum á fundi lögreglustjóra með sóttvarnalækni í morgun að sögn Úlfars Lúðvíks­sonar, lög­reglu­stjóra á Suður­nesj­um. Ljóst er að ef þetta stefnir í óefni verði að bregðast við í samræmi við nýjar og harðari sóttvarnareglur segir Úlfar í samtali við mbl.is.

Fleiri þúsund heimsóttu gosstöðvarnar í Geldingardal í gær. Er talið að á ákveðnum tímapunkti hafi yfir eitt þúsund verið þar saman komin. 

Mikil umferð er á Suðurstrandavegi.
Mikil umferð er á Suðurstrandavegi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Mjög margir útlendingar hafa skoðað eldgosið undanfarna daga og margir þeirra væntanlega búsettir á Íslandi. Meðal þeirra sem vöktu athygli gesta í gær var hópur úr norska hernum. Úlfar segir að þetta sé allt til skoðunar enda ekki ætlast til þess að þeir sem eru að koma úr flugi fari beint og heimsæki gosstöðvarnar.

Gríðarlegt álag hefur verið á lögreglu og björgunarsveitir frá því eldgosið hófst á föstudagskvöldið og að sögn Úlfars þarf klárlega að hafa nýjar sóttvarnareglur í huga á þessum slóðum sem og annars staðar. 

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við erum í stöðugum samskiptum við sóttvarnalækni og þetta bar á góma á fundi lögreglustjóra með sóttvarnalækni í morgun. Við getum auðvitað haft af þessu áhyggjur en vonumst til þess að fólk geti samt viðrað sig,“ segir Úlfar. Hann biðlar því til fólks að fara varlega og virða þær reglur sem nú eru í gildi þegar það kemur á gossvæðið. Engar athugasemdir eru gerðar við fjölskyldur sem eru saman á ferð en fólk beðið um að forðast blöndun milli hópa. 

Bæði björgunarsveitarfólk og lögregla er á vettvangi og leiðbeinir þeim sem vilja bera eldgosið augum.

Nándarregla um tveggja metra fjarlægð og reglur um grímuskyldu óbreyttar. Sem fyrr verða börn fædd 2005 og síðar undanþegin grímuskyldu en falla undir fjölda- og nálægðartakmarkanir.

Hér er hægt að skoða upplýsingar úr teljara á göngustígnum sem telur umferð fólks.

mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert