Gönguleiðin opnuð klukkan 10

Búið er að opna fyrir umferð um Suðurstrandarveg en hann er lokaður frá Hrauni að Krísuvíkurafleggjara. Gönguleiðin að gosstöðvunum verður opnuð klukkan 10. Gunnar Schram, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurnesjum, varar fólk við því að gönguleiðirnar eru flughálar og nauðsynlegt sé að vera á broddum til að fara þessa leið. Mjög kalt er á þessum slóðum og hvöss norðanátt. 

„Á nýafstöðnum fundi var ákveðið að opna Suðurstrandarveg og gönguleið að gosstöðvunum í Geldingadölum kl. 10:00. Veður á svæðinu er þeim hætti að strekkingsvindur er af norðri og flughált á gönguleiðum að gosstöðvunum. Fólki er sem hyggst fara að gosstöðvunum í dag, er eindregið ráðlagt að búa sig vel og hafa brodda meðferðis,“ segir í tilkynningu frá lögreglu.

Suðurstrandarvegur er opinn með takmörkunum og lögregla er með umferðarstýringu á svæðin. Einstefna er frá Grindavík til austurs að Ísólfsskála og þar er hraði tekin niður í 30 km/klst. Veginum var lokað í gærkvöldi og eins var bannað að fara að gosinu í Geldingardölum í gærkvöldi og í nótt.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands eru útlit fyrir norðan 8-15 m/s í nágrenni eldstöðvarinnar í dag og mengun leggur þá til suðurs frá gosinu.

Á þriðjudag er áfram útlit fyrir norðlæga átt, 5-10 m/s en um kvöldið snýst í hægari vestlæga átt.

Ekki er búist við að mengun fari yfir heilsuverndarmörk í byggðum í nágrenni gosstöðvanna.

Af öryggisástæðum lokaði lögreglustjórinn á Suðurnesjum fyrir umferð um Suðurstrandarveg að gosstöðvum í Geldingadölum klukkan 21 í gærkvöld. Geldingadalir voru í kjölfarið rýmdir.
Í tilkynningu frá lögreglu í gær kom fram að þörf hafi verið á að hvíla björgunarlið sem hefur staðið vaktina í rúma viku en ekki er sjálfgefið að hægt verði að tryggja öryggi fólks seint um kvöld og að næturlagi við gosstöðvarnar í því margmenni sem þar hefur verið síðustu daga.
Vegna smithættu hefur sóttvarnalæknir eindregið hvatt fólk til þess að vera heima og láta vera að heimsækja eldstöðvarnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert