„Það er ekki einn einasti maður á myndinni“

Magnús Hagalín Ásgeirsson og Bára Elíasdóttir við gosstöðvarnar í morgun.
Magnús Hagalín Ásgeirsson og Bára Elíasdóttir við gosstöðvarnar í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrátt fyrir að gönguleiðin að gossvæðinu í Geldingadölum hafi í raun verið lokuð í nótt og til klukkan níu í morgun fengu nokkrir morgunhanar að ganga inn að gosinu fyrir þann tíma. Við gosið voru um tíu manns þegar blaðamaður náði tali af fólki á svæðinu um klukkan níu í morgun. Þar voru meðal annarra tveir Vestfirðingar sem kynntust á bílastæðinu í morgun, nú sameinaðir í Geldingadölum.  

„Ég og Bára hittumst hérna á bílastæðinu. Við erum búin að þekkjast alveg í tvo tíma,“ segir Magnús Hagalín Ásgeirsson. „Við komumst að því að við erum bæði Vestfirðingar.“

Bára, sem er Elíasdóttir, þurfti að snúa við þegar lokað var fyrir umferð á svæðinu í gær. 

„Ég ætlaði sko ekki að missa af þessu. Við þurftum að snúa við í gær vegna þess að það var svo mikil umferð. Það er alveg geðveikt að vera hérna. Það er ótrúlegt að sjá þetta,“ segir Bára. 

Bæði hún og Magnús lögðu af stað frá heimilum sínum fyrir klukkan sex í morgun. 

„Það var eiginlega markmiðið að sjá þetta með ekki of marga í kringum sig,“ segir Magnús. „Það er fámennt en góðmennt.“

Þorsteinn Ingi Magnússon var einn af þeim sem lagði leið …
Þorsteinn Ingi Magnússon var einn af þeim sem lagði leið sína að gosinu snemma í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Magnað sjónarspil

Þorsteinn Ingi Magnússon var einnig vaknaður fyrir allar aldir til þess að sjá gosið. 

„Það var gefið út að þessu væri lokað. Ég sá lögreglubíl við Grindavík og lögreglumaðurinn sagði mér að svo lengi sem ég legði ekki á vegkantinum og færi niður á bílastæði þá væri það í lagi,“ segir Þorsteinn aðspurður hvernig mögulegt væri að komast að gosinu ef svæðið væri lokað.

Hann segir að það sé magnað að sjá gosið án mannmergðarinnar sem venjulega er þar. „Það er ekki einn einasti maður á myndinni.“

Magnús Viðar Sigurðsson og Ilmur Kristjánsdóttir.
Magnús Viðar Sigurðsson og Ilmur Kristjánsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það verða allir að koma hingað

Ilmur Kristjánsdóttir og Magnús Viðar Sigurðsson komu sömuleiðis snemma á svæðið og var þeim einnig hleypt í göngu þrátt fyrir að svæðið væri lokað opinberlega. 

„Við vöknuðum klukkan fimm. Svæðið var lokað til níu, við vissum ekki af því, en þeir hleyptu okkur samt upp eftir. Við vorum á eigin ábyrgð og vorum vöruð við gasmengun,“ segir Ilmur. 

Um sjónarspilið segir Ilmur:

„Maður hélt að maður væri bara að fara að tékka í box með því að koma hingað en þetta er alveg upplifun. Það verða allir að koma hingað.“

Hún segir að þó það hafi verið magnað að sjá fjallið án mannmergðarinnar þá sé nóg pláss á svæðinu. 

„Ég held að það sé gaman að koma hingað sama hvort það eru þrír hérna eða 200.“

Að sögn morgunhananna er gönguleiðin í góðu standi og ekki mikið um hálku. Þó er mikilvægt að vera vel búinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert