Ný lausn til að komast að gönguleiðinni

Umferðaröngþveiti myndaðist í kringum Fagradalsfjall, sem vonast er til að …
Umferðaröngþveiti myndaðist í kringum Fagradalsfjall, sem vonast er til að endurtaki sig ekki um páskana. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skipulagðar rútuferðir hefjast á morgun á hálftíma fresti frá Grindavík og að gönguleiðinni upp á Fagradalsfjall og kostar farið 1.000 krónur fyrir fullorðna farþega.

Kristín María Birgisdóttir, upplýsingafulltrúi bæjarfélagsins, kveðst sjálf hiklaust myndu velja þessa leið ef hún væri á leiðinni frá Reykjavík til að sjá gosið í Geldingadölum, enda alls ekki sjálfgefið að ná stæði á einu af þeim fjórum bílastæðum sem eru við fjallið.

Kristín bendir á að með því að leggja innanbæjar í Grindavík og taka rútuna að gönguleiðinni, sparist í mörgum tilvikum fleiri kílómetrar sem fólk þarf að ganga úr bílum sínum og upp að gönguleið.

Tvö einkafyrirtæki annast rútuferðirnar, Bus4u Iceland og Hópbílar.

Yfir 1.000 bílar komast fyrir á fjórum bílastæðum við Fagradalsfjall, …
Yfir 1.000 bílar komast fyrir á fjórum bílastæðum við Fagradalsfjall, en frá stæðinu við Ísólfsskála eru um 1,5 kílómetrar að upphafi gönguleiðarinnar. Landeigendur hafa ekki viljað ráðast í gjaldtöku fyrir bílastæði á svæðinu. Ljósmynd/Aðsend

Alger sprenging í gær

Mikið umferðaröngþveiti skapaðist í grennd við fjallið í gær og á endanum þurfti að loka svæðinu vegna ágangs. Margir höfðu beðið klukkustundum saman eftir að komast að þegar þeim var vísað frá.

Helstu áhyggjur Kristínar eru að þetta endurtaki sig um helgina. „Þetta getur reynt á þolrif bæjarbúa, að komast jafnvel ekki heim til sín eða að sækja börnin sín á leikskóla vegna umferðar. Í gær varð alger sprenging en við höfum verið að vinna að lausnum,“ segir Kristín, sem telur að rútuferðirnar verði strax til bóta á svæðinu.

Lagt hefur verið til að gjaldtaka sé tekin upp á bílastæðum við gosin og Kristín telur það skynsamlega hugmynd, þar sem nýta mætti hagnað í uppbyggingu á svæðinu. Bæjaryfirvöld hafa þó lítið um það að segja enda bílastæðin á landi í eigu einstaklinga, sem hafa hingað til ekki valið að fara þessa leið.

Hér má nálgast frekari upplýsingar um rútuferðir frá Grindvík að gosstað.

Eldgos hefur staðið yfir í 12 daga.
Eldgos hefur staðið yfir í 12 daga. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert