Hættustig á Keflavíkurflugvelli síðdegis

Frá Keflavíkurflugvelli.
Frá Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Hættustigi var lýst yfir á Keflavíkurflugvelli nú síðdegis þegar flugmaður einkaflugvélar sem hafði tekið á loft frá flugvellinum tilkynnti að hann hefði fengið meldingu um að eitthvað væri að lendingarbúnaði vélarinnar.

Þetta staðfestir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, í samtali við mbl.is en Vísir greindi fyrst frá.

Flugvélin fór í loftið á þriðja tímanum með fjóra innanborðs en sneri við þegar í ljós kom að lendingarbúnaður væri í ólagi, og hringsólaði svo um stund til að brenna eldsneyti áður en hún kom til lendingar, sem gekk áfallalaust fyrir sig og engin slys urðu.

Vélinni var ekið af flugbraut og út á akbraut, þar sem í ljós kom að nefhjól vélarinnar hafði skekkst. Flugvélin verður á akbrautinni þar til rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur lokið vettvangsrannsókn, að sögn Guðjóns, og þaðan verður hún svo dregin burt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert