Undirbúa sig á Jaðri

Steindór Ragnarsson, framkvæmdastjóri GA, fyrir utan æfingaaðstöðu klúbbsins, Klappir, sem …
Steindór Ragnarsson, framkvæmdastjóri GA, fyrir utan æfingaaðstöðu klúbbsins, Klappir, sem senn verður tekin í notkun. mbl.is/Margrét Þóra

„Við áttum satt best að segja von á meiri vilja bæjarins gagnvart þessu móti, en kemur okkur kannski ekki algjörlega á óvart því þetta er sama niðurstaða og var árið 2016 þegar síðast var haldið Íslandsmót á Jaðarsvelli,“ segir Steindór Ragnarsson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Akureyrar, GA. Íslandsmótið í golfi verður haldið á Jaðarsvelli á komandi sumri, dagana 5. til 8. ágúst. Þátttakendur, konur og karlar, verða um 150 talsins.

Golfklúbbur Akureyrar sótti um styrk að upphæð 2 milljónir króna til Akureyrarbæjar í því skyni að gera völlinn sem best úr garði áður en blásið yrði til Íslandsmóts.

Íslandsmótið fór síðast fram á golfvellinum á Jaðri fyrir fimm árum, árið 2016 og hafði þá ekki verið haldið slíkt mót þar frá árinu 2000. Fjölmargir fylgdust með mótinu fyrir fimm árum og var m.a. bein útsending í sjónvarpi frá seinni dögum mótsins sem ríflega 35 þúsund manns horfðu á.

„Við erum mjög spennt fyrir því að halda mótið í sumar og vonum svo sannarlega að ekkert komi í veg fyrir það,“ segir Steindór og vísar þar m.a. í kórónuveirufaraldur sem sett hefur strik í margan reikninginn.

„Við höfum mikinn metnað til að hafa umgjörð alla sem best verður á kosið,“ bætir hann við og nefnir að leitað hafi verið til bæjarins um styrk til að vinna að endurbótum á vellinum fyrir mótið.

Mikil lyftistöng fyrir íþróttina

Endurbyggja þarf þrjá teiga. Þá stendur til að lengja þrjár brautir til að gera þær meira krefjandi fyrir bestu kylfingana. Eins þarf að betrumbæta vökvunarkerfi vallarins og leggja þar rafmagn og setja upp rafmagnskassa svo hægt sé að dreifa rafmagni víðar um völlinn en nú er.

Horft er til þess að notast við rafmagnssláttuþjóna á stórum slegnum svæðum, m.a. vegna umhverfissjónarmiða, minni launakostnaðar og minni kostnaðar við rekstur véla og viðhalds. Kostnaður við fyrirhugaðar framkvæmdir nemur um 5,5 milljónum króna.

Fram kemur í bókun frá frístundaráði Akureyrarbæjar að það fagni því að mótið verði haldið á Akureyri en það geti ekki orðið við erindinu því ekki sé gert ráð fyrir slíkum styrkveitingum í fjárhagsáætlun. Leggur ráðið áherslu á að íþróttafélög sæki um styrki við gerð fjárhagsáætlunar sem fram fer að hausti.

„Auðvitað þykir okkur miður að bærinn sjái sér ekki fært að styrkja okkur, þetta er stærsta golfmótið sem haldið er á hverju ári og þar etja allir bestu kylfingar landsins kappi. Það er mikil lyftistöng fyrir íþróttina á Akureyri að fá mótið í bæinn og er ákveðinn stimpill á gott starf hjá Golfklúbbi Akureyrar. Það ríkir mikill metnaður í okkar herbúðum að bjóða gestum upp á góða upplifun. Öll aðstaða er til fyrirmyndar og kapp er lagt á að kylfingar sem leggja leið sína á Jaðarsvöll fari með eftirminnilega upplifun í farteskinu að leik loknum,“ segir Steindór.

Aldrei fleiri hringir spilaðir en í fyrra

Golfklúbburinn er á mikilli uppleið en golfiðkun á liðnu ári jókst umtalsvert miðað við fyrri ár. Íslendingar tóku tilmælum yfirvalda og ferðuðust í ríkum mæli innanlands í fyrrasumar og var Akureyri vinsæll áfangastaður. Steindór segir Golfklúbbinn vel hafa orðið þess varan, umferð um völlinn var meiri en vanalega. Alls voru spilaðir 26.982 hringir á vellinum sem er það mesta frá árinu 2014, ríflega 5.000 hringjum meira en þá og um 25% aukning frá síðasta metári.

Völlurinn var opinn 163 daga í fyrra, en loka þurfti 1. nóvember vegna hertra sóttvarnareglna. Að meðaltali voru spilaðir 166 hringir á dag á Jaðarsvelli en ef horft er til sumarmánaðanna, júní, júlí og ágúst voru spilaðir að meðaltal 212 hringir á dag, 50 fleiri á dag en var árið 2019.

Stóru mótin á sínum stað

Steindór segir komandi sumar líta vel út náist að halda kórónuveirufaraldri í skefjum. Golf sé þó þannig íþrótt að það má leika án snertingar og með því að fylgja sóttvarnareglum sé hægur vandi að leika golf. „Stóru mótin okkar eru á sínum stað í sumar, segir Steindór og nefndir m.a. að skráning á miðnætursólarmótið Arctic Open 2021 fari vel af stað. Þegar hafa 27 erlendir kylfingar skráð sig til leiks og á hann von á að sú tala fari vaxandi á næstu vikum. „Erlendir kylfingar voru lítið á ferðinni í fyrrasumar vegna aðstæðna í samfélaginu, en við vonum að staðan verði betri á komandi sumri,“ segir Steindór að endingu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert