„Maður er reglulega kýldur niður aftur“

Íris Hrund ásamt sonum sínum tveimur. Hún var mjög heilsuhraust …
Íris Hrund ásamt sonum sínum tveimur. Hún var mjög heilsuhraust áður en kórónuveiran knúði að dyrum. Ljósmynd/Aðsend

Ung kona sem glímir við erfið eftirköst af Covid-19 eftir að hafa smitast af kórónuveirunni í septembermánuði kallar eftir því að aðrar reglur muni gilda um þá sem hafa myndað mótefni gegn veirunni, og jafnvel þá sem eru fullbólusettir, hvað líkamsrækt og sund varðar.

Þótt það sé gleðiefni að líkamsræktarstöðvar og sundlaugar fái að opna í vikunni segir hún erfitt að hugsa til þess að hún geti ekki sinnt sinni endurhæfingu í líkamsræktarstöð ef þeim verður lokað að nýju.

Konan, Íris Hrund Sigurðardóttir, er þrítug og hefur glímt við heilsuleysi síðan hún sýktist af Covid-19. Hún finnur fyrir mikilli þreytu, sleni og fær flensueinkenni annað slagið.

„Það eina sem mér hefur fundist virka á eftirköstin er að hreyfa mig og skora á líkamann. Það eru fleiri sem hafa sömu sögu að segja,“ segir Íris Hrund. Hún finnur hvernig henni hrakar bæði líkamlega og andlega þegar hún kemst ekki í líkamsrækt.

„Þegar maður er þrítugur og missir heilsuna fær maður líka heilsukvíða í kjölfarið. Ég var farin að halda að ég myndi aldrei ná heilsu aftur, þegar ég var sem verst. Þá trúði ég því bara að ég yrði alltaf frekar lasin.“

Hreyfing utandyra hentar ekki vegna eftirkastanna

Íris Hrund segir að það henti sér ekki að stunda hreyfingu utandyra eftir Covid-19-veikindin og er sömu sögu að segja af mörgum öðrum í hennar sporum.

„Það hentar ekki þegar maður er búinn að fá sjúkdóm sem leggst á lungun og maður hefur upplifað mikla mæði. Ég er oft andstutt og það er eins og lungun séu ekki eins stór og þau voru fyrir sýkingu. Þá treystir maður sér ekki út í svifrykið, mengunina og frostið,“ segir Íris Hrund.

Íris Hrund er meðlimur í facebookhópnum Við fengum Covid-19. Þar eru um 1.500 manns.

„Ég kannaði á meðal fólks í hópnum hvort ég fengi stuðning til þess að skora á sóttvarnalækni og heilbrigðisráðuneytið að athuga þetta fyrir okkur. Ég fékk stuðning frá þeim og margir þökkuðu fyrir framtakið. Það eru margir sem hafa nákvæmlega sömu sögu að segja og ég: Að hreyfing hefur hjálpað þeim alveg gífurlega í endurhæfingu eftir Covid. Það er svo erfitt þegar við erum bara aðeins komin á skrið að við séum aftur kýld niður þegar það er lokað. Þá auðvitað dettur maður úr þessum bata sem maður var kannski loksins kominn í. Maður er reglulega kýldur niður aftur,“ segir Íris Hrund.

Það eru ekki rök sem við getum hlustað á

Hún sendi heilbrigðisráðuneytinu og sóttvarnalækni erindi vegna þessa á sunnudagskvöld og fékk þau svör frá heilbrigðisráðuneytinu að erindi hennar yrði tekið til greina. Heilbrigðisráðherra sagði í samtali við mbl.is í dag að ekki væri útlit fyrir að sérreglur myndu gilda um þá sem hefðu myndað mótefni gegn Covid-19 eða verið bólusettir.

„Ég veit ekki hvort þau hafa eitthvað skoðað erindið. Þau hafa kannski ekki verið að velta því fyrir sér því líkamsræktarstöðvar verða hvort eð er opnaðar í vikunni en að öllum líkindum lokað aftur. Í gær voru þrjú smit utan sóttkvíar sem er alveg frekar mikið,“ segir Íris Hrund og bætir við:

„Það er ekki hægt að segja við okkur, eins og umræður innan facebookhópsins hafa verið, að það sé of erfitt að opna fyrir sérstaka hópa. Það eru ekki rök sem við getum hlustað á. Þetta er spurning um okkar endurhæfingu og lýðheilsu fyrir okkur sem erum að fást við erfið og langvinn eftirköst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert