„Er frjálshyggjan að ná völdum í verkalýðshreyfingunni?“

Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins.
Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins. mbl.is/Hari

Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambandsins, bættist í kvöld í hóp þeirra verkalýðsforkólfa sem gagnrýna frumvarp Bjarna Benediktssonar fjármálaráherra um breytingar á ýmsum lögum vegna hækkunar lágmarksiðgjalds til lífeyrissjóðs og ákvæðum um tilgreinda séreign. 

Hann segist þó ekki sammála þeim röddum innan verkalýðshreyfingarinnar sem vilja meira frjálsræði með tilhögun tilgreindrar séreignar. Hvetur hann Drífu Snædal, forseta ASÍ, til dáða í að verja núverandi fyrirkomulag samtryggingar og tilgreindrar séreignar. 

„Þetta þýðir það, að ungt fólk sem slasast og verður öryrkjar, það tapar heilmiklu af réttindum sínum við þetta,“ segir Björn í samtali við mbl.is, um hugmyndir sem uppi eru um að tilgreind séreign, 3,5% af 15,5% iðgjaldi, fari ekki sjálfkrafa í samtryggingu heldur geti fólk ráðstafað henni að vild. Í dag er það möguleiki sem óska þarf sérstaklega eftir, annars rennur tilgreind séreign fólks í samtryggingarhluta lífeyrissjóðanna. 

Vilhjálmur Birgisson, formaður verkalýðsfélags Akraness, er meðal þeirra sem hvatt hafa til breytinga á þessu fyrirkomulagi.

Bitni á þeim sem síst skyldi 

Hann segir að breytingar á því muni bitna mest á þeim sem þurfa hvað mest á kerfinu að halda. 

„Ung manneskja sem lendir í slysi, segjum 22 ára gömul, sem búin er að greiða í lífeyrissjóð í þrjú ár. Þá er reiknað með sömu tekjum fram að 67 ára aldri og við það miðast réttindi þessa einstaklings,“ segir Björn Snæbjörnsson. Þetta er kerfi sem hann vill standa vörð um og hvetur Drífu til að standa fast á sínu.  

Frá þessu greinir Björn á facebooksíðu sinni í dag og segir m.a.: 

„En af hverju leggja áherslu á samtryggingu? Það er nefnilega þannig að sumir fá minna út úr lífeyrisjóði en þeir hafa borgað en aðrir sem lenda í áföllum fá meira út úr sjóðunum en þeir hafa borgað. Er þetta ekki það sem stéttarfélögin eru byggð á og hafa sameinast um að halda í?

Það er sorglegt að sjá fólk í dag berjast fyrir því að hægt sé að setja þessi 3,50% í venjulega séreign sérstaklega. Er frjálshyggjan að ná völdum í verkalýðshreyfingunni? Höfum þetta eins og það er í dag, að hægt sé að óska eftir því að fara í þessa tilgreindu séreign ef ekki er óskað eftir því þá fari þetta í samtrygginguna.“

Sjá má færslu Björns hér: 


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert