Ákvað að flækja ekki hamingjuna

Tónlistarmaðurinn Hrafnkell Hugi Vernharðsson er einn þeirra sem hefur stundað …
Tónlistarmaðurinn Hrafnkell Hugi Vernharðsson er einn þeirra sem hefur stundað nám við Lýðskólann á Flateyri. Ljósmynd/Aðsend

Hrafnkell Hugi Vernharðsson er fyrrverandi nemandi við Lýðskólann á Flateyri en honum líkaði dvölin svo vel að hann hefur keypt hús á Flateyri og sest þar að.

Hrafnkell var nemandi við skólann veturinn 2019-2020 og systir hans, Katla Vigdís, er nú nemandi við skólann. Þau eru í hljómsveitinni Celeb ásamt bróður sínum, Valgeiri Skorra, sem ekki hefur stundað nám við skólann, hvað sem framtíðin ber í skauti sér.

Flateyri.
Flateyri. mbl.is/Sigurður Bogi

Systkinin hafa öll getið sér gott orð í tónlistinni og unnið Músíktilraunir. Bræðurnir árið 2015 með hljómsveitinni Rythmatik og Katla með Between Mountains. Fyrsta plata Celebs, Tálvon hinna efnilegu, er tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna í flokki rokkplatna. Kraumar, lag Celeb, er jafnframt tilnefnt til verðlauna í flokki rokklaga ársins en Íslensku tónlistarverðlaunin verða afhent í kvöld. 

Á hverjum vetri er haldið sérstakt paellu-kvöld nemenda við Lýðskólann …
Á hverjum vetri er haldið sérstakt paellu-kvöld nemenda við Lýðskólann á Flateyri á veitingastaðnum Vagninum. Ljósmynd/Aðsend

Hrafnkell er fæddur og uppalinn á Suðureyri og bjó áður en hann fór í Lýðskólann á Flateyri á Ísafirði en þar á undan hafði hann búið í nokkur ár í Reykjavík.

Spurður út í það hvers vegna hann ákvað að sækja um nám við Lýðskólann á Flateyri segir hann að á þessum tíma hafi verið ákveðin biðstaða hjá honum og hann ekki vitað hvað hann ætti að gera í lífinu. „Mér leist vel á skólann sem eitt ár til að átta mig á hvað ég vildi gera næst. Það gekk betur en ég hefði nokkurn tímann ímyndað mér,“ segir Hrafnkell.

Hópur nemenda við Lýðskólann á Flateyri.
Hópur nemenda við Lýðskólann á Flateyri. Ljósmynd/Víðir Björnsson.

Mestallan tímann var Hrafnkell á námsbrautinni Hug­mynd­ir, heim­ur­inn og þú en þegar fjórðungur var eftir af námsvetrinum skipti hann yfir á hina brautina: Fjöll­in, hafið og þú, til þess að auka fjölbreytnina.

Þú ákvaðst eftir námið að setjast að á Flateyri?

„Já, ég ákvað að vera ekki að flækja hamingjuna, mér leið betur þarna en mér hafði liðið annars staðar þannig að ég var ekkert að flækja þetta og sé ekki eftir því.“

Hrafnkell er með stúdíó heima hjá sér og vinnur að tónlistinni á Flateyri og í samstarfi við Valgeir sem býr fyrir sunnan í gegnum netið.

Nemendur við Lýðskólann á Flateyri veturinn 2019-2020.
Nemendur við Lýðskólann á Flateyri veturinn 2019-2020. Ljósmynd/Aðsend

Hann segir fjarvinnu vera framtíðina, að vinna í gegnum netið nánast hvaðan sem er í heiminum. Það er lán í óláni að Covid-faraldurinn hefur fengið fólk til þess að átta sig á því hvað er hægt að vinna mikið þráðlaust eða gegnum netið. Mörg störf sem núna er hægt að vinna annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu segir Hrafnkell sem er alsæll á Flateyri og sér ekki fyrir sér að flytja þaðan á næstunni.   

Sjá nánari upplýsingar um Lýðskólann á Flateyri hér



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert