Dagur B. bólusettur

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri var bólusettur í dag.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri var bólusettur í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri er meðal þeirra sem fengu fyrri bólusetningu við Covid-19 í dag.

Dagur hafnaði nýverið bólusetningu sem heilbrigðisstarfsmaður en sagði jafnframt að hann myndi þiggja sinn skammt þegar kæmi að þeim sem eru á ónæmisbælandi lyfjum. Dagur hrósaði allri umgjörð bólusetningarinnar í Laugardalshöll en hann, líkt og aðrir sem voru bólusettir í dag, fékk bóluefni Pfizer. „En ég tek fram að ég hefði þegið hvaða bóluefni sem Þórólfur sóttvarnalæknir hefur gefið grænt ljós á fyrir minn aldurshóp,“ segir meðal annars í færslu Dags B. Eggertssonar á Facebook í dag. 

„Heilsugæslan bólusetti einsog vindurinn, hratt og örugglega. Ég brosti hringinn og skellti næstum upp úr þegar ég áttaði mig á því að reyndustu og bestu yfirmenn umferðarlögreglunnar með sjálfan Árna Friðleifsson í broddi fylkingar voru að stýra umferðinni úr anddyrinu, í stólana og þaðan í fimmtán mínútna hvíld til að tryggja að enginn fengi ofnæmisviðbrögð.

Á staðinn voru mætt hundruð fólks með undirliggjandi sjúkdóma, á öllum aldri - það eru þúsundir sem eru á ónæmisbælandi lyfjum en eru um leið virkir þátttakendur í samfélaginu. Og fólk streymdi að og streymdi frá Höllinni - með sól í hjarta og sól í sinni. Ekki var annað að sjá.

Ég sagði ykkur frá því um daginn að ég afþakkaði að fá bólusetningu sem læknir - en um leið að ég myndi svo sannarlega þiggja minn skammt þegar kæmi að þeim sem eru á ónæmisbælandi lyfjum. Og sá dagur er sem sagt dagurinn í dag. Einhverjir sáu reyndar ástæðu til að efast um að ég myndi þiggja bóluefni. En það var alltaf fjarri mér. Ég vildi bara ekki flokkast í forgangshópi með læknum sem sinna sjúklingum heldur vildi fara um leið og fólk í sama forgangshópi og ég.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert