Friðrik Dór valinn bæjarlistamaður

Friðrik Dór er bæjarlistamaður Hafnarfjarðar.
Friðrik Dór er bæjarlistamaður Hafnarfjarðar. Ljósmynd/Hafnarfjarðarbær

Friðrik Dór Jónsson tónlistarmaður var valinn bæjarlistarmaður Hafnarfjarðar í dag, á síðasta degi vetrar, við hátíðlega athöfn í Bæjarbíói Hafnarfjarðar. Kemur þetta fram í tilkynningu frá bænum.

Er þar sagt frá því að Friðrik hafi frá unga aldri sungið sig inn í hug og hjarta Hafnfirðinga og auðgað menningarlíf bæjarins með framkomu sinni, skemmtun og viðburðum.

Bæjarlistamaður fær 1,5 milljónir í viðurkenningarskyni til að vinna áfram að list sinni en hefð hefur skapast fyrir því að síðasti vetrardagur er haldinn hátíðlegur í Hafnarfirði með tilkynningu um val á bæjarlistamanni ársins.

Friðrik Dór hóf feril sinn með hafnfirsku hljómsveitinni Fendrix sem hann stofnaði með félögum sínum í Setbergsskóla þegar hann var í 8. bekk og tók hljómsveitin þátt í Músíktilraunum árið 2003 og komst í úrslit. Þar spilaði Friðrik Dór á trommur en hann stundaði nám í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar á sínum yngri árum. Meðal þekktra laga Friðriks eru Til í allt, Hringd'í mig, Fröken Reykjavík og lagið Í síðasta skipti sem Friðrik Dór flutti í Söngvakeppni Sjónvarpsins árið 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert