Óhætt að eyða skilaboðum frá BPO

Forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar segir að mikið sé um mál, …
Forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar segir að mikið sé um mál, þar sem óprúttnir aðilar reyna að svindla á grunlausu fólki með þessum hætti. mbl.is/Golli

Innheimtufyrirtækið BPO Innheimta varar við því á heimasíðu sinni að óprúttinn aðili hafi sent SMS-skilaboð til grunlauss fólks og sagt að það ætti óuppgerða skuld við fyrirtækið. Á vefsíðu fyrirtækisins kemur fram að BPO sé ekki að senda út slík SMS-skilaboð og því er þeim sem fá slík skilaboð óhætt að eyða þeim. 

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir við mbl.is að tugir tilkynninga hafi borist til samtakanna um fólk sem fengið hefur skilaboðin. Hann segir að Neytendasamtökin geti ekki og ætli því ekki að aðhafast í málinu, að svo stöddu.

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. mbl.is/Eggert

Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar, segir við mbl.is að honum hafi ekki verið kunnugt um málið, enn sem komið er, en leggur áherslu á að sægur mála af þessu tagi hafi komið inn á borð stofnunarinnar undanfarin ár. Þá sérstaklega í tengslum við Íslandspóst, þar sem óprúttnir aðilar reyndu að hafa fé af fólki í nafni póstsins. 

Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar.
Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert