Borgin og ríkið gefa Hörpu 55 milljóna króna gjöf

Við hátíðlega athöfn í Hörpu. Nýr Steinway-flygill stendur tignarlega í …
Við hátíðlega athöfn í Hörpu. Nýr Steinway-flygill stendur tignarlega í bakgrunni. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Í tilefni þess að í dag eru 10 ár frá formlegri opnun Hörpu þáði tónleikahúsið veglegar gjafir frá íslenska ríkinu og Reykjavíkurborg.

Önnur gjöfin, nýr Steinway-konsertflygil, kostaði ríki og borg um 25 milljónir króna, en Víkingur Heiðar Ólafsson píanisti hafði lýst því yfir fyrir skömmu að gamli flygill tónleikahússins væri kominn til ára sinna og farinn að missa tóna.

Vindharpa á Hörputorgi

Hin gjöfin er útilistaverkið Vindharpa, en því verður komið fyrir á Hörputorgi. Verkið er eftir Elínu Hansdóttur, sem sigraði í samkeppni um list í opinberu rými í umhverfi Hörpu árið 2008.

„Vindharpa er fagurlega formað hljóðfæri með strengjum sem virkja vindinn sem hljóðgjafa og mun kosta um 30 milljónir króna,“ segir í tilkynningu stjórnarráðsins.

„Það var mikilvægur áfangi fyrir íslenskt tónlistarfólk þegar Harpa var loksins opnuð fyrir tíu árum. Þá höfðu íslenskir tónlistarmenn barist fyrir tónlistarhúsi áratugum saman. Bygging hússins stóð tæpt eftir hrun og margir sem vildu að hætt yrði við framkvæmdina. Ég er mjög stolt af þeirri ákvörðun ríkis og borgar að halda áfram með bygginguna á sínum tíma enda hefur húsið orðið glæsilegur vettvangur tónlistar frá öllum heimshornum,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í tilefni dagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert