Myndaði Keili daglega og svo hófst gos

Keilir 5. maí.
Keilir 5. maí. Ljósmynd/Rebekka Guðleifsdóttir

„Eins og móðir náttúra sjálf hafi sagt gjörðu svo vel, byrjaðu að taka myndir aftur, gerðu eitthvað stórkostlegt, og ég bara: ókei,“ segir Rebekka Guðleifsdóttir ljósmyndari en hún hóf að mynda Keili í janúar, eftir langt hlé frá ljósmyndun, og hefur myndað hann á hverjum degi síðan. Fyrir einskæra tilviljun hóf í mars að gjósa í rammanum sem Rebekka hafði myndað.

Rebekka heldur úti Instagram-reikningnum Daily Keilir en þar deilir hún myndunum sínum.

„Svo hugsa ég alltaf guði sé lof að ég byrjaði að pósta þessu formlega á Instagram með dagsetningum í febrúar, annars er þetta bara eins og einhver lygasaga. Ljósmyndarar lenda ekkert í svona tilviljunum á hverjum degi,“ segir Rebekka.

Rebekka tekur myndirnar með aðdráttarlinsu af svölunum frá sér í Hafnarfirði en þar er hún með óspillt útsýni að Keili en á myndunum sem hún deilir lætur hún alltaf sjást í toppana á tveimur húsum svo það sjáist að ramminn er ávallt sá sami.

Mynd tekin 14. janúar.
Mynd tekin 14. janúar. Ljósmynd/Rebekka Guðleifsdóttir

Þann 12. febrúar byrjaði Rebekka að deila myndum af Keili og 12 dögum síðar byrja jarðskjálftarnir. „Ég fer að fylgjast með jarðskjálftatöflunni og sé að á tímabili eiga 90% jarðskjálftanna upptök sín frá Keili og mér finnst þetta nú pínu skrýtið.“ Þann 25. febrúar skrifar Rebekka síðan í fyrsta sinn á Instagram að það væri nú ótrúlega gaman ef það kæmi eldgos inn í rammann hennar.

Síðan koma fréttir að því vísindamenn telji að möguleg eldsumbrot séu í vændum og þá fannst Rebekku þetta vera ansi mikil tilviljun. Henni fannst þó ansi svekkjandi þegar það kom fram í fréttum að jarðskjálftarnir væru að færast í átt að Fagradalsfjalli.

„Ég fer svo eitthvað að djóka með það að ég þurfi að hætta að fylgjast svona vel með þessu, annars fari ekkert að gjósa,“ segir Rebekka. En 18. mars ákvað hún að fara út úr bænum til að fá hvíld frá skjálftunum.

Svo fór að gjósa

Þann 19. mars hófst svo gos í Geldingadölum. Þá var Rebekka reyndar komin aftur í bæinn en var með son sinn á læknavaktinni þegar gosið byrjaði og þegar heim var komið var komið myrkur og ekkert sást í gegnum myndavélina. Rebekka gat því ekki vitað hvort gosið sæist í rammanum sem hún hafði svo samviskusamlega myndað vikum saman. Daginn eftir sá hún myndir af Keili og að gosbjarmi hefði sést við fjallið. „Næstu daga er ég í hálfgerðri örvæntingu og ég trúði ekki að ég hefði misst tækifærið,“ segir Rebekka.

Loksins 23. mars sá Rebekka síðan gosið frá svölunum heiman frá sér og þá var það innan rammans. „Ég bókstaflega trúði þessu ekki. Þetta var of gott,“ segir Rebekka.

View this post on Instagram

A post shared by Daily Keilir (@dailykeilir)

Fylgdist með nýjum gíg myndast

„Svo fór bjarminn að sjást reglulega að kvöldi til. Svo sáust pínulitlar gusur yfir sjóndeildarhringinn og af því að ég var búin að vera að taka svo ofboðslega nákvæmar myndir, alltaf frá sama sjónarhorni, þá fór ég að taka eftir því að það fór að sjást nýr gígur á sjóndeildarhringnum,“ segir Rebekka og bætir við:

„Ég tók samanburð hlið við hlið þar sem sást alveg bein lína og allt í einu þessi nýi gígur og svo varð þetta meira og meira og dag eftir dag fer maður að ná einhverjum hærri hraunspýjum upp í loftið og ég bara eiginlega kemst ekki yfir þetta. Þetta er ekki einu sinni bara inni í rammanum heldur milli húsanna tveggja sem ég valdi svo það myndi alltaf sjást að þetta væri nákvæmlega sama sjónarhornið. Ég get ekkert svindlað. Þetta er alltaf nákvæmlega frá sama stað.“

Gígar myndast.
Gígar myndast. Ljósmynd/Rebekka Guðleifsdóttir

„Mér finnst þetta persónulega eiginlega alveg galið. Ef þetta hefði verið tekið með bara venjulegri linsu sem sýnir allan sjóndeildarhringinn þá hefði tilviljunin ekki verið eins svakaleg en aðdráttarlinsur virka þannig að þær þjappa öllu þannig að allt virkar nær,“ segir Rebekka og bætir við: „Líkurnar á því að þetta lendi svona vel, nánast í miðjum rammanum, þetta er bara stjarnfræðilega ólíklegt. Eiginlega bara ekki hægt.“

„Ofan á allt annað að þetta skuli vera fyrsta gosið í einhver 800 ár í Reykjanesi og fyrsta dyngjugosið í einhverjar þúsundir ára og einmitt eitthvað óvenjukröftugt líka. Þetta er alveg magnað. Maður hefði aldrei nokkurn tímann geta trúað því eða látið sig dreyma um að fá svona tækifæri,“ segir Rebekka að lokum.

Keilir 30. apríl.
Keilir 30. apríl. Ljósmynd/Rebekka Guðleifsdóttir.
Keilir 7. maí.
Keilir 7. maí. Ljósmynd/Rebekka Guðleifsdóttir
Keilir 10. maí.
Keilir 10. maí. Ljósmynd/Rebekka Guðleifsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert