Vilja koma á fót sérstöku ofbeldiseftirliti

Gunnar Smári Egilsson, formaður Sósíalistaflokks Íslands.
Gunnar Smári Egilsson, formaður Sósíalistaflokks Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Sósíalistaflokkurinn kynnti stefnu sína í málefnum er snúa að ofbeldi hvers konar, á vefsíðu flokksins í dag. Þar segir að kjósendum bjóðist að kjósa til valda flokk, í þingkosningum í haust, sem ætlar að ráðast í aðgerðir gegn hvers kyns ofbeldi, sem flokkurinn segir að sé rótgróið og kerfisbundið í samfélaginu.

Stefnuskrá flokksins um ofbeldi var samþykkt á sameiginlegum fundi framkvæmda- og málefnastjórna Sósíalistaflokksins fyrr í dag.

Meðal þess sem Sósíalistaflokkurinn kveðst ætla að gera:

  • Setja á laggirnar sérstakt ofbeldiseftirlit sem rannsakar eftir ábendingum eða eigin frumkvæði vinnustaði, skóla og opinbera staði. Eftirlitið muni þannig hafa vald til að bregðast við þar sem sýnt er að ofbeldi og/eða áreitni viðgengst. Þá verði eftirlitinu heimilt að fjarlægja ofbeldismenn, svipta staði starfsleyfi og beita öðrum leiðum til að tryggja starfsfólki, nemum og gestum öryggi. Einnig segir um téð eftirlit að því muni bera að einbeita sér sérstaklega að þeim stöðum þar sem valdaójafnvægi er mikið, vegna tekjumunar, aldursmunar eða ólíks uppruna, stöðu eða valds.
  • Setja á laggirnar sjálfstæð lögreglu- og ákærustofnun með hæfu starfsfólki sem sérhæfi sig í rannsókn og málsmeðferð kynferðisofbeldismála, lagi rannsóknaraðferðir að þörfum þolenda og alvarleika málanna. Þannig á stofnunin að geta styrkt málarekstur sinn fyrir dómstólum og sömuleiðis stuðning við brotaþola fyrir og eftir málflutning og meðan á honum stendur.
  • Veita brotaþolum gjafsókn til þess að sækja einkamál gegn brotamönnum.
  • Koma á fót „heimili fyrir brotamenn“ sem beita sambýlisfólk sitt, fjölskyldur og maka ofbeldi. Þannig skulu þeir fjarlægðir af heimilum sínum og á hið þar til gerða heimili. Fulltrúar „ofbeldiseftirlits“ mæti ætíð á vettvang heimilisofbeldis auk barnaverndaryfirvalda, búi börn við aðstæður þar sem ofbeldi þrífst.
  • Þróa námskeið fyrir alla þá sem vinna með börnum til að auka þekkingu þeirra á ofbeldi gegn börnum og auka getu þeirra til þess að koma auga á hvers kyns misferli gegn þeim. Þannig verður sú krafa gerð að allir þeir sem vinni með börnum hafi lokið slíku námskeiði.
  • Efna verði til námskeiða fyrir starfsfólk heilbrigðisstofnana og þá sem vinna við persónulega aðstoð fólks sem býr við fötlun, líkamlega eða andlega, eða getuskerðingu af einhverju tagi. Fræðslunni er ætlað að koma í veg fyrir ofbeldi af hendi umönnunaraðila hvort heldur meðvitað eða ómeðvitað og hvernig best sé að þekkja einkenni þess og bregðast við.
  • Þróa námsefni um kynjafræði, kynferðisofbeldi og annað ofbeldi og innleiða fyrir alla árganga leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Þá verði unnið fræðsluefni fyrir allan almenning.
  • Tryggja brotaþolum meðferð við áföllum sínum. Greiða skal sanngirnis- og miskabætur úr opinberum sjóðum til þeirra sem hafa orðið fyrir ofbeldi og skaða og ekki geta sótt slíkar bætur í einkamálum. Bótanefnd miði við lægri sönnunarkröfu en reyndin er í sakamálum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert