Alexandra forseti og Pawel yfir skipulagsráði

Alexandra Briem og Pawel Bartoszek.
Alexandra Briem og Pawel Bartoszek.

Alexandra Briem er nýr forseti borgarstjórnar og tekur hún formlega við embætti á fundi borgarstjórnar á þriðjudag. Pawel Bartoszek fráfarandi forseti verður formaður skipulagsráðs í stað Sigurborgar Óskar Haraldsdóttur sem hætti í borgarstjórn um mánaðamót vegna veikinda.

Alexandra skipaði þriðja sætið á lista Pírata í síðustu borgarstjórnarkosningum en hún kom inn í borgarstjórn um mánaðamótin þegar Sigurborg hætti.

Alexandra er þriðji forseti borgarstjórnar á kjörtímabilinu, en Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, gegndi embættinu frá því í júní 2018 fram í júní 2019. Síðan þá hefur Pawel Bartoszek verið forseti. Alexandra er fyrsta transmanneskjan til að gegna starfinu.

Pawel formaður skipulagsráðs

Sigurborg Ósk var áður forseti skipulags- og samgönguráðs borgarinnar. Ákveðið hefur verið að Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar, taki við þeirri stöðu og af þeim sökum hættir hann sem forseti.

Í færslu á Facebook segir Pawel að hann brenni fyrir málaflokknum og sé þakklátur fyrir að honum sé treyst fyrir að stýra honum. Mörg mál séu þar í gangi, svo sem borgarlína, uppbygging á Ártúnshöfða, hverfisskipulag Breiðholts, hjólreiðaáætlun og hámarkshraðaáætlun.

Þá segist hann ævinlega þakklátur fyrir samstarf við fráfarandi formann ráðsins, Sigurborgu Ósk Haraldsdóttur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert