Einkum horft til fólks á miðjum aldri

Beðið eftir bólusetningu við Laugardalshöll.
Beðið eftir bólusetningu við Laugardalshöll. mbl.is/Kristinn Magnússon

Búast má við því að breytingar verði gerðar á boðunum í bólusetningar á næstunni þar sem viðkvæmir hópar eru flestir að verða búnir að fá að minnsta kosti fyrri bólusetningu. Í þessari viku verða gefnir 24 þúsund skammtar af bóluefni hér, þar af 16 þúsund á höfuðborgarsvæðinu. Meðal þeirra sem eru bólusett í Laugardalshöllinni í dag eru konur fæddar árið 1970 og 1971.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á von á því að allir þeir sem eiga rétt á bóluefni verði í þessu slembivali á fólki sem er boðið upp á bólusetningu. Hér á landi hefur verið gefið út að öllum 16 ára og eldri (fæddir 2005) og eldri verði boðin bólusetning við Covid-19. Af þeim fjórum bóluefnum sem þegar eru með markaðsleyfi á Íslandi er Pfizer-BioNTech eina bóluefnið sem er ætlað fyrir aldurshópinn 16-18 ára.

Við reynum að taka þetta þvert á aldurshópa en höfum ekki alveg hugsað það hvernig við boðum þetta yngsta fólk segir Þórólfur í samtali við mbl.is. Næst verður væntanlega horft til fólks sem er á miðjum aldri. Að fókuserað verði á þann aldurshóp þegar kemur að næstu bólusetningum og þá þvert á þá aldurshópa sem ekki hafa enn verið bólusettir. „Þetta kemur allt hægt og bítandi,“ segir Þórólfur spurður út í næstu skref í bólusetningum við Covid-19 hér á landi.

65.011 eru nú fullbólusettir og bólusetning hafin hjá 82.581. Það þýðir að 22% eru fullbólusettir og 28% eru hálfbólusettir. 2,1% er með mótefni. 

Seinni skammtur væntanlega gefinn eftir tvo til þrjá mánuði

Búið er að bólusetja tæplega 50 þúsund Íslendinga með bóluefni AstraZeneca. Ákveðið hefur verið að nota bóluefni Astra Zeneca fyrir karla fædda 1981 og fyrr konur fæddar 1966 og eldri ef ekki eru til staðar ákveðnir áhættuþættir bláæðablóðsega.

Á Landspítalanum er farið að miða við átta vikur á milli bólusetninga og nú eru tæplega þrjú þúsund fullbólusettir af þessum hóp.

Þórólfur segir að verið sé að skoða hvort fara eigi þá leið almennt að bjóða fólki upp á að fá seinni skammtinn af AstraZeneca eftir tvo til þrjá mánuði. Það eru til niðurstöður um einn mánuð og þrjá mánuði og hann segist ekki eiga von á að það sé mjög frábrugðið hvort seinni skammturinn er gefinn eftir tvo mánuði eða þrjá. Ekki búið að ákveða endanlega hvernig þetta verður og ekki heldur hvernig fólk verður boðað í seinni bólusetningu. Á sama tíma liggur ekki fyrir afhendingaráætlun fyrir AstraZeneca fram í tímann.

„Ekki alveg sjálfgefið að það verði hægt en við stefnum að því að gera það tveimur til þremur mánuðum eftir þá fyrri,“ segir Þórólfur.

Hjarðónæmi næst ekki án góðrar þátttöku

Eitt af því sem hefur verið rætt er mögulegt hjarðónæmi og í umfjöllun New York Times nýverið kom fram að í Bandaríkjunum óttist sérfræðingar að það geti tekið áratugi að ná þar hjarðónæmi. Ekki síst vegna þess að ákveðnir hópar mæta ekki í bólusetningu. Þórólfur segir að það séu tvær leiðir færar til að ná fram hjarðónæmi: að bólusetja eða leyfa veirunni að ganga lausri.

Ég vona að fólk haldi áfram að að mæta vel í bólusetningar því það eru aðeins tvær leiðir færar til að koma á útbreiddu ónæmi í samfélaginu. Við vitum vel hver afleiðingin er ef hún fær að ganga laus og segist Þórólfur því vonast til þess að fólk mæti þegar það er boðað í bólusetningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert