Samfélagsmiðlar hrikalegur dómstóll

Hildur Sverrisdóttir.
Hildur Sverrisdóttir. Ljósmynd/Margrét Seema Takyar

„Í umróti Metoo-byltingar undanfarinna daga hefur það komið mér á óvart að ég skyldi upplifa breytingu á mínum eigin viðmiðum. Ég er sjálf þolandi og með talsverða reynslu af störfum gegn kynferðisbrotum, takmörkunum á sjálfsákvörðunarrétti kvenna og fyrir viðhorfsbreytingum. Ég hélt því að ég væri nokkurn veginn með þetta á hreinu.“

Þetta skrifar Hildur Sverrisdóttir, varaþingmaður og aðstoðarmaður ráðherra í færslu á facebooksíðu sinni.

Þá segir hún það þungbært að lesa yfir aragrúa frásagna þar sem fólk lýsir upplifun sinni af ofbeldi. Það sé einnig þungbært að átta sig á því að enn séu alvarlegar brotalamir í samskiptum fólks og í kerfinu sem á að styðja við það.

Hildur bendir á að síðustu ár hafi verið ein langvarandi bylting.

„Kerfið nú þarf að geta brugðist við flóknara og grárra svæði en hingað til hefur verið einblínt á og þá sérstaklega með það fyrir augum að þolendur og gerendur fái betri leiðsögn, stuðning og lausnir,” segir hún.

Hildur sem er lögfræðingur að mennt bendir hins vegar á að lögin eru ekki óvinur fólksins í landinu heldur samfélagssáttmáli fólksins og að sanngjarnt réttarkerfi sé ein mikilvægasta trygging mannréttinda sem fram hefur komið í sögu mannkyns.

„Við getum bæði litið aftur í söguna og til landa í heiminum í dag þar sem réttarkerfið er virt að vettugi og lög túlkuð eftir hentugleik sem býður upp á ógeðfellt ofríki ríkja gagnvart fólkinu sínu,“ segir Hildur og bendir á að ef við ætlum að breyta samfélaginu megi ekki kollvarpa þeim kerfum sem vernda grunnréttindi borgaranna.

Þurfum að ræða gagngerar breytingar til hlítar

„Samfélagsmiðlar eru frábær vettvangur fyrir byltingar en hrikalegur dómstóll. Þetta finnst mér verða að hafa í huga þótt tilfinningarnar gagnvart kerfi sem þykir ekki virka á sanngjarnan hátt séu meira en skiljanlegar. Byltingunni fylgja ótal raddir og skoðanir um hvernig eigi að bregðast við. Við höfum þegar séð atlögur gerðar að því að framfylgja réttlætinu svo að segja í beinni og það vekur mér raunverulegum ugg að það verði að viðteknum hlut að fólk í samfélaginu taki refsivaldið í sínar hendur þegar kerfið bregst,“ segir Hildur og bendir á að ef við viljum gera gagngerar breytingar þurfum við ræða það til hlítar.

„Þess vegna hlýtur nú að taka við heiðarlegt samtal um það hvernig við getum breytt menningunni sem býr til ofbeldið, búið til samfélag sem hlustar og trúir og býður leiðir sem koma að raunverulegu gagni fyrir þolendur og gerendur - en að við gætum þess að á eftir sitjum við ekki uppi með ríki þar sem fólk getur ekki treyst því að réttarkerfið verndi grunnréttindi þeirra,“ skrifar Hildur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert