Elska stærðina á íslenskum ísum

Ivaana, Svava, Caroline og Angela eru nemendur í Norður-Atlantshafsbekknum sem …
Ivaana, Svava, Caroline og Angela eru nemendur í Norður-Atlantshafsbekknum sem nú stundar nám í Versló. mbl.is/Ásdís

Í Versló er tómlegt um að litast, enda allir búnir í prófum og komnir út í sumarið. Þó er einn bekkur þar sem ekki fær kærkomið frí alveg strax, því hann fylgir dönsku skólakerfi. Nám í Norður-Atlantshafsbekknum er í boði fyrir ungmenni frá Íslandi, Færeyjum, Grænlandi og Danmörku. Nemendur mynda menntaskólabekk sem á þremur árum fær bæði faglegt og menningarlegt nám frá þessum fjórum löndum. Bekkurinn, sem nú er staddur á Íslandi, var sá fyrsti sem myndaður var í þessu þróunarverkefni en þau hófu nám fyrir tveimur árum í Danmörku og dvöldu þar í heilan vetur. Síðastliðið haust héldu þau til Færeyja þar sem dvalið var eina önn og í janúar kom hópurinn svo til Íslands. 

Norður-Atlantshafsbekkurinn fór saman að skoða og upplifa eldgosið sem þær …
Norður-Atlantshafsbekkurinn fór saman að skoða og upplifa eldgosið sem þær stöllur segja hafa staðið upp úr þegar þær horfa til baka yfir Íslandsdvölina.

Blaðamaður hitti fjórar hressar stúlkur, eina frá hverju landi, og fékk þær til að segja frá hvernig það er að eyða menntaskólaárunum á flakki á milli landa. Ivaana, Caroline, Angela og Svava hafa kynnst vel og eru góðar vinkonur. Þær eru allar ánægðar að hafa valið þennan kost og hefðu alls ekki viljað missa af þessari reynslu.

Ákvað að grípa tækifærið

Hvernig fréttuð þið af þessu og af hverju völduð þið að taka menntaskólann í Norður-Atlantshafsbekknum?

Ivaana: Ég frétti af þessu þegar ég var sextán ára og þá skiptinemi á Ítalíu. Mamma sendi mér upplýsingar og sagði mér að skoða þennan möguleika. Ég varð strax mjög spennt. Ég sótti samt um til vara menntaskóla í Grænlandi en langaði samt mest í þennan bekk. Mér finnst svo skemmtilegt að ferðast. Ég sótti svo um og komst inn í bekkinn.

Caroline: Ég var líka skiptinemi, í Frakklandi, þegar ég heyrði af þessum bekk, en foreldrar mínir lásu um hann í blöðunum. Ég gat ekki hætt að hugsa um þetta og vissi að ef ég myndi ekki sækja um, myndi ég sjá eftir því það sem eftir væri. Þannig að ég sló til og hér er ég. Norður-Atlantshafssvæðið hefur alltaf átt sér stað í mínu hjarta þar sem afi minn vann mikið á Grænlandi sem jarðfræðingur. Ég hafði farið þangað einu sinni með honum. Ég hafði líka einu sinni farið til Færeyja með skólahljómsveitinni minni og líka farið í ferð til Íslands með foreldrum mínum.

Angela: Ég er frá Kollafirði, litlum þúsund manna bæ í Færeyjum. Einn kennari minn sagði mér frá þessum skóla en ég sagði strax nei; mér fannst þetta hljóma mjög stressandi. En svo fór ég að hugsa þetta betur og hugsaði að þetta yrði frábær reynsla. Nú sé ég ekki eftir því.

Svava: Ég sá auglýsingu á Facebook þar sem kynning á bekknum var auglýst. Ég mætti á kynninguna og eftir það var ég ekki alveg viss. En ég hugsaði mjög mikið um þetta og þrátt fyrir að vera í vafa ákvað ég að sækja um. Þetta var tækifæri sem ég varð að grípa og ég sé heldur ekki eftir því.

Djömmuðum hljóðlega

Bekkurinn hóf sem fyrr segir nám í Danmörku og gengu krakkarnir þá í skóla í Helsinge, bæ norður af Kaupmannahöfn. Þar bjuggu þau í sérútbúnum gámum, nema Danirnir sem bjuggu hjá foreldrum sínum. Í gámunum var bað og lítil eldunaraðstaða.

Hvernig fannst ykkur að vera í ókunnugu landi og þurfa að sjá um ykkur sjálf?

Angela: Mér fannst það spennandi. Mér fannst ég tilbúin til að sjá um mig sjálf og tókst það vel. Það gat líka verið mjög þreytandi. En það var gaman meðan á því stóð.

Svava: Mér fannst gaman að prófa að standa á eigin fótum og það var auðvelt að aðlagast nýjum rútínum. En það erfiðasta fyrir mig var það að ég kunni ekki nóg í dönsku og skildi nánast ekkert sem kennarnir voru að segja. Það tók nokkra mánuði að ná tökum á málinu og þá eignaðist ég vini og allt varð miklu betra.

Freydís, Ivaana G., Svava, Ivaana O. og Francisca njóta lífsins …
Freydís, Ivaana G., Svava, Ivaana O. og Francisca njóta lífsins í Bláa lóninu.

Ivaana: Við vorum fljót að eignast góða vini í bekknum og erum mjög náin. Við hittumst oft og lærðum saman og borðuðum saman.

Caroline: Við þekkjumst miklu betur en krakkar gera í venjulegum bekk.

Ivaana: Það var svolítið um partístand í byrjun í Danmörku en það lagaðist fljótt.

Caroline: Já, nágrannarnir kvörtuðu smá, en ég held ekki að krakkarnir hafi haft mjög hátt.

Svava: Við máttum ekki spila tónlist eftir tíu.

Fóru þið eftir öllum reglum?

Caroline: Opinbera svarið er; að sjálfsögðu.

Svava: Það var alls ekki bara verið að skemmta sér, við þurftum líka að læra.

Ivaana: Við djömmuðum mjög hljóðlega.

Stelpurnar skella upp úr.

Allir vinalegir í Færeyjum

Næst lá leiðin til Færeyja og þar bjuggu flestir krakkarnir hjá fjölskyldum, nema Færeyingarnir sem bjuggu heima. Skólinn var staðsettur í smábæ í Kambsdal.

Caroline: Þetta var vindasamasti staður í heimi held ég. Við bjuggum við mismunandi aðstæður; ég bjó á heimili hjá fjölskyldu.

Ivaana: Við bjuggum nokkrar saman og þurftum að elda sjálfar ofan í okkur, en vorum með stuðningsfjölskyldu. Við elduðum mikið lax, kartöflur, pasta og súpur. Ég var mjög hrifin af Færeyjum.

Svava: Það er svo fallegt þarna og allir eru svo vinalegir!

Angela: Takk!

Þær hlæja dátt.

Caroline: Eina vesenið var að komast á milli. Samgöngur voru lélegar. Sumir voru nálægt skólanum en aðrir mjög langt í burtu. Við sem vorum nálægt hvert öðru hittumst oft fyrir utan skóla og héngum saman og horfðum á bíómyndir. Strætókerfið í Færeyjum er hræðilegt.

Risastórir ísar

Eftir jólafrí í heimalöndum sínum var haldið til Íslands. Krakkarnir voru mættir hér í byrjun janúar og eftir sóttkví á hóteli héldu sumir þeirra til fósturfjölskyldna en aðrir búa nokkrir saman eða í herbergjum á stúdentagörðum.

Stelpurnar sjá ekki eftir því að hafa valið að stunda …
Stelpurnar sjá ekki eftir því að hafa valið að stunda menntaskólanám í fjórum löndum. Ásdís Ásgeirsdóttir

Svava: Ég bý heima og tveir bekkjarfélagar búa heima hjá mér, stelpa frá Grænlandi og stelpa frá Danmörku.

Angela: Ég bý hjá fjölskyldu í Vesturbæ þar sem ég bý í kjallaranum með fósturbróður mínum. Við erum orðin góðir vinir.

Caroline: Ég bý í Hafnarfirði. Mér finnst ég stundum einangruð því ég er svolítið langt í burtu frá hinum, sem búa flest í Reykjavík.

Hvernig líkar ykkur á Íslandi?

Ivaana: Mér finnst frábært hér. Það er mjög ólíkt dvölinni í Færeyjum. Við í bekknum erum mikið saman en það er öðruvísi.

Ivaana ferðaðist um Suðurland og fór á fjórhjól á Sólheimasandi.
Ivaana ferðaðist um Suðurland og fór á fjórhjól á Sólheimasandi.

Caroline: Hér er miklu meira hægt að gera þar sem við erum í borg. Í Færeyjum þurftum við að vera duglegri að finna upp á einhverju skemmtilegu.

Hvað hefur komið ykkur helst á óvart á Íslandi?

Angela: Stærðin á ísum!

Caroline: Já! Stærðirnar hér eru svolítið amerískar.

Ivaana: Við erum sko ekki að kvarta!

Hvað stendur upp úr?

Þær svara allar einum rómi: Eldgosið!

Nánar er rætt við stúlkurnar fjórar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert