„Aukin yfirvinna er afleitur kostur“

Páll Matthíasson forstjóri Landspítala.
Páll Matthíasson forstjóri Landspítala. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

Páll Matth­ías­son, for­stjóri Land­spít­al­ans, segir verkefnið „Betri vinnutími vaktavinnumanna“ mesta breytingu á vinnutíma vaktavinnumanna í marga áratugi, afskaplega jákvæða þróun og mikla framför en aukin yfirvinna sé afleitur kostur. Þetta er meðal þess sem kemur fram í föstudagspistli forstjórans. 

Páll segir að þessar breytingar hafi verið baráttumál til margra ára. Markmið þeirra er meðal annars að gera vaktavinnu meira aðlaðandi og eru væntingar til þess að fleiri starfsmenn geti litið á vaktavinnu sem aðlaðandi kost.

„Innleiðing á betri vinnutíma hefur að mestu leyti gengið vel á Landspítala, raunar svo að litið er til þess hversu vel hefur miðað en vissulega hafa verið áskoranir í svo stóru verkefni. Þetta lýtur einkum að starfsfólki sem er með mikla sérhæfingu, eins og víða er hjá okkur.

Eins er innleiðing breytts vinnutíma í byrjun sumars mikil áskorun fyrir starfsmenn og stjórnendur spítalans. Innleiðing og eftirfylgd svona stórs verkefnis er sameiginlegt verkefni starfsmanna og stjórnenda þar sem það er ávinningur beggja aðila að vel takist til.

Ýmsum atriðum innleiðingarinnar er ekki að fullu lokið og er unnið markvisst að þeim. Mörg sóknarfæri og vannýtt tækifæri eru enn til staðar fyrir Landspítala og starfsmenn í þessu umbreytingaferli sem unnið verður að á næstu vikum og mánuðum til að markmið innleiðingarinnar á betri vinnutíma vaktavinnumanna náist.

Vaktavinnufólk á Landspítala hefur aukið við sig starfshlutfalli sem nemur um 200 stöðugildum en þó vantar enn um 100 stöðugildi. Þessu viljum við helst mæta með því að fá starfsmenn til að auka við sig starfshlutfall en einnig þarf að líta til frekari ráðninga. Aukin yfirvinna er afleitur kostur enda myndi slíkt vinna gegn markmiðum verkefnisins auk þess að vera kostnaðarsamt. Við munum því halda áfram markvissum kynningum á þessu mikilvæga verkefni fyrir starfsmenn og stjórnendur og finna leiðir í samvinnu til að leysa þau mál sem út af standa,“ segir Páll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert