„Kitlar alltaf ef vel gengur“

Þórhallur Sigurðsson leikstjóri og leikari hefur starfað við Þjóðleikhúsið í …
Þórhallur Sigurðsson leikstjóri og leikari hefur starfað við Þjóðleikhúsið í meira en hálfa öld. mbl.is/Árni Sæberg

„Markmið mitt hefur alltaf verið að sinna vinnunni minni vel óháð hvers kyns viðurkenningum,“ segir Þórhallur Sigurðsson sem fyrr í kvöld hlaut heiðursverðlaun Sviðslistasambands Íslands. 

Í ræðu sinni sagði Þórhallur að hugurinn leitaði til baka við þessi tímamót.

„Hvernig byrjaði þetta allt saman? Ég held ég sé með svarið.
Fjögra til fimm og sex ára. Fegurðin í Þjóðleikhúsinu, stuðlabergið í loftinu-undraveröldin á sviðinu, Snædrottningin, Litli Kláus og Stóri Kláus, hræðilegur Skuggasveinn,og svo allar sýningarnar eftir það.

Bannaðar myndir og boltinn

Og kvikmyndirnar. Sparkvöllur okkar Þróttaranna á Grímstaðarholtinu náði næstum alla leið að Trípólíbíói, stóra bragganum sem Bretinn hafði byggt á stríðsárunum. Þegar við pollarnir vorum orðnir þreyttir í boltanum fórum við aftur fyrir bíóið, lögðum eyrun að bakveggnum og hlustuðum á hljóðrásina í bíómyndunum-ímyndunaraflið fór á flug. Þegar við vorum orðnir aðeins eldri fékk dyravörðurinn í bíóinu okkur til að sópa salinn, þar með vorum við orðnir starfsmenn og gátum séð allar myndir, bannaðar eða ekki. T.d mikið af frönskum glæpamyndum – Lenny Constantin og svo Birgitte Bardot myndirnar. Einn franskur titill sérstaklega mynnisstæður: Nakin kona í hvítum bíl. Og ekki var langt að hlaupa niður í Tjarnarbíó, sem síðar átti eftir að verða mitt uppáhald: Kvikmyndaklúbburinn Filmía og Kvikmyndaklúbbur M.R.,“ sagði Þórhallur og nefni ýmislegt fleira í ræðu sinni, þar á meðal fjölskylduna og sveitina í Skagafirði. 

Ný nálgun á Hjálmar Tudda 

„Melaskólinn. Þar var sjö ára pattinn látinn lesa söguna Litli lögregluþjónninn upp á sviði á jólaskemmtuninni. Ég lærði líka þar að spila á flautu og lesa nótur hjá Guðrúnu Pálsdóttur, og hélt því áfram í Barnamúsíkskólanum. Kennarar Róbert Abraham Ottóson og Ingólfur Guðbrandsson.

Hagaskóli: Við settum upp Mann og konu eftir Jón Thoroddsen, leikstjóri Klemens Jónsson. Ég lék Hjálmar Tudda, og var það alveg ný nálgun á þeirri persónu, sem alltaf hafði verið leikinn vel í holdum. Og svo M.R. Herranóttin tvisvar,fyrra árið í Iðnó og Tjarnarbíói og seinna árið í Þjóðleikhúsinu í fyrsta sinn. Leikferð til Akureyrar bæði árin. Leikstjóri var Benedikt Árnason sem enn á leikstjórnarmetið hvað snertir fjölda sýninga í Þjóðleikhúsinu.

Úr öllu þessu og auðvitað ýmsu öðru varð til þessi leikhúskarl sem hérna stendur,“ sagði Þórhallur og þakkaði í framhaldinu öllu samstarfsfólki sínum og vinum, þessi fimmtíu og þrjú árin. „Bestu þakkir fyrir skapandi samstarf og baráttu fyrir betra Þjóðleikhúsi.

Afi Þórhallur og amma Helga eignuðust ellefu börn í hjáleigukoti í Skagafirði. Afkomendur í dag eru um fimmhundruð . Passið ykkur bara, við erum út um allt.“

Lesa má viðtal við Þórhall Sigurðsson á menningarsíðum Morgunblaðsins á morgun, föstudag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert