Það verður mikið fagnað í ár

Kormákur og Skjöldur skáluðu í Bríó de Janeiro á ströndinni.
Kormákur og Skjöldur skáluðu í Bríó de Janeiro á ströndinni. Ljósmynd/Hari

Veitingamennirnir Kormákur Geirharðsson og Skjöldur Sigurjónsson á Ölstofunni fagna því um þessar mundir að ellefu ár eru síðan húsbjór þeirra, Bríó, var fyrst reiddur fram. Óhætt er að segja að afmælinu sé fagnað með stæl því nú kynna þeir til leiks sumarútgáfu bjórsins vinsæla, Bríó de Janeiro.

„Þetta var hugmynd sem Skjöldur fékk fyrir nokkrum árum. Okkur langaði að gera annan bjór og þetta nafn kom upp úr honum. Því miður var Ölgerðin of sein að kveikja á þessu fyrir Ólympíuleikana í Rio de Janeiro en stjórnendur þar stukku á vagninn með okkur núna. Ég held að þeir sjái ekki eftir því, ekki frekar en öðru sem þeir gera með okkur,“ segir Kormákur.

Þeir félagar eru þekktir fyrir að klæðast sígildum herrafötum og því er léttur bjór og sumarstemning ekki það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar nafn þeirra ber á góma.

Ljósmynd/Hari

„Nei, en ég fer nú samt ekki í sterkari bjóra en Bríóinn, ég sæki frekar í léttari bjóra. Það er gott að fá kalda og ferska bjóra við þorsta og Bríó de Janeiro er þannig. Ég held að við höfum hitt á eitthvað með bruggmeisturunum hjá Borg, þetta er alger negla. Hann er hættulega ferskur þessi og kallar á hraðdrykkju, helvítið á honum. Ætli við getum ekki kallað það lúxusvandamál?“

Það er tímanna tákn að Bríó de Janeiro kemur á markað í tveimur útgáfum. Þeirri hefðbundnu og áfengu sem hefur verið í sölu á Ölstofunni einum staða að undanförnu og er nú komin í Vínbúðirnar. Og svo er það óáfeng útgáfa sem nálgast má í matvöruverslunum. Óáfengir bjórar njóta sífellt meiri vinsælda hér á landi og Kormákur segir þá félaga taka þeirri þróun opnum örmum.

„Ég þekki marga alkóhólfría menn sem finnst gaman að sitja á bar. Þeim finnst leiðinlegt að sitja bara með vatn, klaka og sítrónu en eru frekar til í þennan fíling að fá bjór í glasi án þess að eiga það á hættu að þurfa að fara aftur í meðferð. Ég er sjálfur farinn að drekka áfengislausa bjóra heima þegar Bríóinn er búinn. Það er gott að klára kvöldið þannig, þá finnur maður ekki muninn.“

Ellefu ára afmæli Bríós er ekki eina tilefnið sem þeir Kormákur og Skjöldur hafa til að fagna í ár. „Við fögnum 20 ára afmæli Ölstofunnar í nóvember og sama dag fögnum við 25 ára afmæli herrafataverslunarinnar. Það verður mikið fagnað í ár,“ segir veitingamaðurinn.

Hann bætir við að það veiti kannski ekki af eftir erfiða tíma síðustu misseri. Kórónuveiran og samkomutakmarkanir hafa sett svip sinn á veitingareksturinn. „Við misstum úr marga mánuði og þegar það hefur verið opið höfum við misst stærstu söluklukkutímana. Af þeim sökum hirðum við alla bitlinga sem koma frá Þórólfi en mér líst ekki á þessar hugmyndir sem eru á lofti um að stytta afgreiðslutíma á skemmtistöðum. Man enginn hvernig þetta var einu sinni? Heldur fólk virkilega að ungir Íslendingar nenni heim klukkan eitt eða tvö á nóttunni? Við getum ekki breytt drykkjumynstrinu svo glatt. En það er nú svo skrítið með lýðræðið að ef yfirvaldið tekur eitthvað af þér getur verið rosalega erfitt að fá það til baka,“ segir Kormákur sem kveðst þó, þrátt fyrir þessar áhyggjur, vera léttur og hress nú þegar vikulokin nálgast og nýr og spennandi Bríó de Janeiro renni úr dælunum á Ölstofunni. „Já, nú fögnum við. Sumarið er komið og lífið er yndislegt!“

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. júní.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert