Loka fyrir umferð inn á gossvæðið

Glóandi hraun flæðir yfir sífellt stærra svæði í Geldingadölum og …
Glóandi hraun flæðir yfir sífellt stærra svæði í Geldingadölum og nágrenni og lokar gönguleiðum og bestu útsýnisstöðunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan á Suðurnesjum hefur ákveðið að loka fyrir umferð inn á gossvæðið í Geldingadölum í dag af öryggisástæðum. Þessi ákvörðun var tekin í samráði við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra eftir að hraun fór að flæða upp úr sunnanverðum Geldingadölum, yfir gönguleið A og niður í Nátthaga.

Í tilkynningu á Facebook-síðu lögreglustjóraembættisins kemur fram að viðbragðsaðilar þurfi svigrúm til að endurmeta aðstæður.

Gönguleið A hefur verið aðalgönguleiðin að gossvæðinu mestan gostímann, en byrjað var að undirbúa lagningu nýrrar gönguleiðar á svipuðum stað og gönguleið B hefur verið, þ.e. vestan megin í Fagradalsfjalli.

Með breytingunni núna lokast af stórt svæði suðvestan við gosstöðvarnar sem hefur verið einn vinsælasti staðurinn til að fylgjast með gosinu og hraunflæðinu. Er svæðið því nú orðið að óbrynnishólma, en nokkrir aðrir slíkir hafa myndast frá því að gosið hófst. Þetta er hins vegar langstærsti slíki hólminn.

Uppfært: Landhelgisgæslan flaug yfir svæðið sem lokaðist í dag og kannaði hvort einhver hefði orðið innlyksa. Samkvæmt upplýsingum frá Gæslunni sást enginn á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert