Ævafornar og einstakar leifar

Jónas hafði leitað steinsins í mörg ár áður en hann …
Jónas hafði leitað steinsins í mörg ár áður en hann rakst á þúfuna sem huldi hann. mbl.is/Jónas Erlendsson

Fornleifafundur í Fagradal á föstudag er með þeim merkari sem orðið hafa í Skaftafellssýslu að sögn Þórðar Tómassonar, fyrrverandi safnvarðar Skógasafns. Um er að ræða blágrýtisstein sem búið er að höggva til og er hann talinn líkja eftir skipi.

Ekki hefur verið auðvelt að höggva í steininn en hann vegur mörg tonn. Þá er margt á huldu um tilurð steinsins.

Jónas Erlendsson, bóndi í Fagradal, er búinn að vera á höttunum eftir steininum í marga áratugi en hann sá steininn fyrst þegar hann var ungur drengur á ferð með afa sínum. Staðsetning steinsins glataðist hins vegar í millitíðinni og höfðu margir velt vöngum yfir hvar hann væri að finna, allt þar til Jónas sá glitta í brot af honum upp úr grastorfu síðasta vetur.

Á föstudag gerði hann sér ferð upp á heiði þar sem hann gróf upp steininn og við honum blöstu þessar einstöku fornleifar sem leitað hefur verið að í marga áratugi.

Þórður hafði lengi haft áhuga á steininum, en fyrir mörgum árum ræddi hann við konu sem hét Sigrún Guðmundsdóttir og var húsfreyja á Fagradal. Hafði hún lýst steininum fyrir honum og svæðinu í kringum hann. Sagði hún þá meðal annars að steinninn væri í tóft og hleðsla væri þar í kring.

Þórður segir þetta ævafornar og einstakar fornleifar en tilgangur þeirra er óþekktur. Hann veit ekki til þess að álíka steinn hafi fundist annars staðar á landinu, síst í Skaftafellssýslu þar sem fornleifar eru sjaldgæfar.

Gömul ferðamannaleið liggur nálægt steininum, en Þórður telur ólíklegt að hún hafi tengingu við fornleifarnar. Kann hann enga skýringu á þessum fundi og telur Þórður þetta umhugsunarefni fyrir fræðimenn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert