Verði meðal fremstu þjóða í að greina frá árangri

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ísland á að verða meðal fremstu þjóða í að birta niðurstöður um árangur í heilbrigðiskerfinu á næstu fimm árum. Þá á að nýta fjarheilbrigðisþjónustu til að jafna aðgengi um landið og byggja 700 ný hjúkrunarrými.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í fimm ára aðgerðaráætlun um framkvæmd heilbrigðisstefnu sem heilbrigðisráðherra hefur lagt fyrir Alþingi. Áætlunin tekur til áranna 2022 til 2026. Ný aðgerðaáætlun er nú lögð fram á hverju ári en þetta er í þriðja sinn sem það er gert.  

Aðgerðaráætlunin byggir á heilbrigðisstefnu til ársins 2030 sem samþykkt var af Alþingi árið 2019.

Hægt verði að útskrifa sjúklinga án tafar

Í áætluninni segir að á næstu þremur árum eigi að jafna aðgengi að heilsugæslu og þjónustu sérfræðinga á landsbyggðinni með fjarheilbrigðisþjónustu og vel skipulögðum sjúkraflutningum.

Þá er einnig sett fram markmið um að hægt verði að útskrifa sjúklinga frá sjúkrahúsum án tafar að meðferð lokinni, en nokkuð hefur verið rætt um að Landspítalinn geti ekki útskrifað sjúklinga vegna skorts á hjúkrunarrýmum.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra við kynningu á heilbrigðisstefnu til ársins 2030.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra við kynningu á heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Skýrar reglur um aukastörf

Fram kemur í áætluninni að á næsta árinu eigi að setja fram skýrar reglur um aukastörf heilbrigðisstarfsfólks sem starfar hjá opinberum stofnunum. Lögð er áhersla á að mönnun í heilbrigðiskerfinu sé fullnægjandi og starfsumhverfið hvetjandi.

Efla á Heilsuveru sem „vegvísi fyrir þjónustu heilbrigðiskerfisins“. Landsmenn munu fá ótakmarkaðan aðgang að sjúkraskránni sinni í gegnum Heilsuveru á næstu tveimur árum gangi áætlunin eftir.  

Á næstu þremur árum er stefnt að því að kostnaður og leit að „ónæmum bakteríum og veirusjúkdómum í áhættuhópum“ verði greiddur úr ríkissjóði og á næstu fimm árum að greiðsluþátttaka sjúklinga fyrir lyf og læknisþjónustu „jafnist á við það sem er lægst í nágrannalöndunum.“

Þá segir í aðgerðaráætluninni að áfram verði í forgangi að styrkja heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað inn í heilbrigðiskerfið. Þar hefur megináhersla verið lögð á eflingu geðheilbrigðisþjónustunnar og heilbrigðisþjónustu við aldraða.

Stefnt er að því að Ísland verði meðal fremstu þjóða í því að birta niðurstöður um árangur í heilbrigðiskerfinu fyrir lok tímabilsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert