Girðingin mun standa

Nýtt grindverk við Fagrahjalla. Enn er hægt að þvera götuna …
Nýtt grindverk við Fagrahjalla. Enn er hægt að þvera götuna með því að fara inn á lóð Fagrahjalla 4. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fyrr í mánuðinum greindi Morgunblaðið frá girðingu sem byggð var í veg fyrir gangandi vegfarendur í Fagrahjalla í Kópavogi. Íbúar í götunni voru verulega ósáttir við bæði byggingu girðingarinnar sem og framgang Kópavogsbæjar í málinu.

Nú kemur á daginn að skipulagsráð Kópavogsbæjar tók málið fyrir að beiðni Sigurbjargar Erlu Egilsdóttur, bæjarfulltrúa Pírata í Kópavogi. Þetta staðfestir hún í samtali við mbl.is. „Það stendur nú til að merkja nýju gönguleiðina og gera gangbrautir yfir þær tvær götur sem hún þverar,“ segir hún og bætir við hún hafi verið í samskiptum við íbúa sem höfðu beint samband við hana. Nýja leiðin verði því hættuminni en að fara yfir götuna sem girðingin stendur við.

Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata í Kópavogi.
Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata í Kópavogi. Ljósmynd/Kópavogsbær

Þá geta gangandi vegfarendur enn þverað götuna með því að fara fram hjá girðingunni í gegnum lóð Fagrahjalla 4 sem bæði er hættulegra en gamla og nýja leiðin og veldur óþægindum fyrir íbúa. Á fundi skipulagsráðs var lofað að hafa samband við íbúa og finna lausn á því.

Þá var rætt á fundinum að bærinn gæti staðið sig betur þegar kæmi að samráði við íbúa í málum er snerta þeirra nærumhverfi og er það vilji Kópavogsbæjar að bæta úr því að sögn Sigurbjargar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert