Ríkið sýknað af tugmilljóna kröfu Sigurðar

Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður.
Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslenska ríkið var á miðvikudag sýknað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af 25 milljóna króna kröfu hæstaréttarlögmannsins Sigurðar G. Guðjónssonar. Sigurður stefndi ríkinu vegna úrskurðar ríkisskattstjóra frá því árið 2018 um vangoldna skatta. 

Málið hverfist um launagreiðslur Sigurðar til sjálfs sín úr hlutafélaginu Sigurði G. Guðjónssyni. Þær námu 42,9 milljónum fyrir tekjuárið 2011. Var það mat skattrannsóknarstjóra að Sigurður hafi greitt sér laun, sem framkvæmdastjóri og starfsmaður félagsins, og láðst að tiltaka þau á skattframtali sínu. 

Þegar ríkisskattstjóri tilkynnti Sigurði að 42,9 milljóna króna úttekt hans úr einkahlutafélaginu Sigurður G. Guðjónsson yrði færð til tekna mótmælti Sigurður því. Fór Sigurður enda fram á í kærunni að þessari ákvörðun yrði snúið til baka. 

Svo varð ekki niðurstaðan, ríkið sýknað og Sigurður dæmdur til að greiða ríkinu 800 þúsund í málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert