Vindhviður allt að 35 metrar á sekúndu

Það bætir í vind þegar hitaskil ganga austur yfir landið …
Það bætir í vind þegar hitaskil ganga austur yfir landið í dag. mbl.is/Jónas Erlendsson

Hitaskil eru nú skammt vestur af landinu og ganga þau til austurs yfir landið í dag. Það bætir því í vind og fer að rigna er skilin nálgast í dag. 

Fram kemur í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands að í dag gengur í sunnan 10 til 15 metra á sekúndu, en sums staðar hvassara í vindstrengjum á Vesturlandi, til dæmis á norðanverðu Snæfellsnesi en þar má búast við 15-23 metrum á sekúndu með vindhviðum um 35 metrum á sekúndu sem getur verið varasamt fyrir ökutæki sem eru viðkvæm fyrir vindi. 

Hægari vindur og þurrt verður norðaustan til á landinu fram á kvöld. Hiti verður um átta til þrettán stig, en að sextán stigum á Austurlandi þar sem hann hangir þurr hvað lengst í dag. 

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag:
Vestan og síðar norðvestan 5-13 m/s. Víða dálítil rigning, en styttir upp að mestu á sunnanverðu landinu síðdegis. Hiti 6 til 12 stig, en allt að 16 stig á Suðausturlandi.

Á miðvikudag:
Norðan og norðvestan 3-8. Bjart með köflum, en skýjað og úrkomulítið norðaustan til. Hiti frá 6 stigum á Norðausturlandi, upp í 16 stig suðvestanlands.

Á fimmtudag:
Suðvestan 3-10 og léttskýjað, en skýjað með köflum vestanlands. Hiti 10 til 18 stig, hlýjast á Austurlandi.

Á föstudag:
Suðvestanátt, víða 10-15 m/s. Rigning eða súld í flestum landshlutum, en léttir til um landið norðaustanvert með deginum. Hiti 10 til 20 stig, hlýjast á Austurlandi en svalast með vesturströndinni.

Á laugardag:
Vestan 8-15 m/s og skýjað að mestu. Dálítil væta á vestanverðu landinu og hiti 8 til 13 stig, en úrkomulítið austan til og hiti að 20 stigum.

Á sunnudag:
Útlit fyrir norðvestanátt. Skýjað og þurrt norðan til og hiti 8 til 14 stig, en bjartviðri syðra og hiti all að 20 stigum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert