Gagnvirkri hraðahindrun komið fyrir í Ólafsvík

Það gæti komið einhverjum ökumönnum að óvörum þegar hlerinn fellur …
Það gæti komið einhverjum ökumönnum að óvörum þegar hlerinn fellur niður við of hraðan akstur. Þeir sem aka á löglegum hraða sleppa við öll óþægindi. Ljósmynd/Vegagerðin

Gagnvirk hraðahindrun, sem á aðeins að valda óþægindum fyrir þá sem keyra of hratt, verður komið fyrir á Ennisbraut í Ólafsvík í lok júní. Segir frá þessu í tilkynningu á vef Vegagerðarinnar.

Virkar hún á þann hátt að hleri fellur niður um nokkra sentimetra ef ökutæki er ekið hraðar en á leyfilegum hámarkshraða götunnar, en ekkert gerist ef ekið er á löglegum hraða.

Skynjari mælir hraða ökutækja og virkjar hraðahindrunina ef ekið er of hratt og fá ökumenn við það óþægilegt högg á ökutækið.

Hraðahindrunin er af gerðinni Actibump frá sænska fyrirtækinu Edeva og voru slíkar hraðahindranir fyrst settar upp árið 2010 í Linköping í Svíþjóð. Verkefnið er tilraunarverkefni til eins árs en ef vel tekst til stendur til að kaupa búnaðinn að ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert