Slegið á létta strengi

Markús Ingi Hróðmarsson.
Markús Ingi Hróðmarsson.

Þegar enga vinnu er að fá verða menn að bjarga sér sjálfir. Það gerir Markús Ingi Hróðmarsson, nemandi í Menntaskólanum í Kópavogi, sem í fyrrasumar stofnaði fyrirtækið „GM garðsláttur“ ásamt Gísla Guðlaugi Sveinssyni, vini sínum. Gísli verður í fiskvinnslu hjá afa sínum á Vopnafirði í sumar og því sér Markús einn um garðsláttinn að þessu sinni. „G og M eru upphafsstafir okkar en þeir geta líka staðið fyrir Garðsláttur Markúsar,“ segir hann.

Sumarslátturinn hófst 1. júní. Markús leggur áherslu á að þjónustan sé í boði á öllu höfuðborgarsvæðinu. Hann segist þekkja vel til garðavinnu eftir að hafa aðstoðað fólk frá unga aldri og verið í unglingavinnunni, þegar það stóð til boða.

Fyrst hafi þetta verið íhlaupavinna félaganna sitt í hvoru lagi en þeir hafi tekið málið föstum tökum í fyrrasumar með góðum árangri. Nú sé hann líka kominn með bílpróf og foreldrar sínir hafi aðstoðað sig við að kaupa bíl sem síðan verði seldur í haust. Gísli sé árinu eldri og hafi verið á bíl í fyrrasumar. „Þau hafa líka hjálpað mér með sláttuvélarnar, en við erum með tvær ef önnur skyldi bila.“

Einkarekstur hentar vel

Vel hefur gengið að kynna starfsemina. Markús segist fyrst og fremst hafa einblínt á Facebook í því efni, því dreifimiðar í hús hafi ekki skilað miklum árangri. „Kynningarnar hjá bæjargrúppum á Facebook hafa virkað mjög vel.“

Eitt er að vera í vinnu hjá öðrum og annað að standa í eigin atvinnurekstri. „Mér finnst gott að ráða mér sjálfur, kann vel við frelsið og svo er gott að vinna úti,“ segir Markús um garðsláttinn. Hann segir að skólafélagarnir vinni margir við verslunarstörf í sumar eða hjá Ungmennafélaginu Breiðabliki í Kópavogi. „Það er enginn í einkarekstri nema ég.“

Markús Ingi Hróðmarsson dregur ekkert af sér í slættinum,
Markús Ingi Hróðmarsson dregur ekkert af sér í slættinum,

Markús keyrir út pítsur hjá Domino's í hlutastarfi, byrjaði á því með skólanum í vetur, en hann var að ljúka öðru ári í MK. Hann fékk ekki fullt starf við útkeyrsluna í sumar og því var ekki annað í boði en að halda áfram með garðsláttinn, sem gekk svo vel í fyrra.

Þeir hafi skapað sér gott orð, fengið marga fasta viðskiptavini og hann búi að því nú ásamt fenginni reynslu. „Það er skemmtilegra að vinna með vini sínum en það verður allt í lagi að vera einn og pabbi ætlar að hjálpa mér ef á þarf að halda,“ segir hann. Mamma hans sjái svo um bókhaldið og að skrifa út reikninga.

Vinnutíminn getur verið langur, frá átta á morgnana til klukkan tíu á kvöldin, en rigningin að undanförnu hefur sett strik í reikninginn. Til þessa hefur mest verið að gera í Kópavogi og Reykjavík en svo er hann með nokkra garða í Garðabæ og Mosfellsbæ.

„Þessi vinna fer mikið eftir veðri. Það er ekki gott að slá í mikilli rigningu og því er um að gera að nota góðu dagana, hvort sem er um helgi eða ekki,“ segir sláttumaðurinn, sem var að í blíðunni um helgina, einbeitir sér að sumarvertíðinni og hugsar ekki mikið lengra.

„Ég veit ekki alveg hvað ég geri í framtíðinni en ætli ég geri ekki eitthvað gáfulegt eins og að stofna fyrirtæki.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert