„Grefur undan trúverðugleika forystunnar“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Eftir því sem menn líta á þetta þá eru ekki nógu mörg pláss,“ segir Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur í samtali við mbl.is um stöðuna hjá Viðreisn. „Þá koma þessar ásakanir um klíkuskap og klækjastjórnmál o.s.frv.“

Dr. Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur er lektor í stjórnmálafræði við Háskóla …
Dr. Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur er lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Styrmir Kári

„Benedikt Jóhannesson var einn af upphafsmönnum Viðreisnar þegar hann fór úr Sjálfstæðisflokknum en hann var meðal annars ósáttur við að það hafi ekki verið haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um ákvörðunina um að segja upp aðildarviðræðum við Evrópusambandið,“ segir Stefanía og bætir við að Benedikt og hans stuðningsmenn hafi verið lengi að undirbúa flokksstofnunina.

Benedikt Jóhannesson, fyrrum formaður Viðreisnar.
Benedikt Jóhannesson, fyrrum formaður Viðreisnar. mbl.is/Hanna

„Þegar flokkurinn var svo stofnaður gekk Þorgerður Katrín til liðs við flokkinn sem var lyftistöng fyrir hann, sama má segja um Þorstein Pálsson. Nema hvað að flokkurinn býður fram og fær ágæta kosningu árið 2016 og kemst í ríkisstjórn. Síðan springur sú stjórn og það er kosið ári síðar, í aðdraganda þeirra fer fylgi Viðreisnar að hrynja,“ segir Stefanía og bætir við að Benedikt hafi átt erfitt uppdráttar á tímabili og því skipt um formann. „Þorgerður tók þá við og fylgið fór að rísa aftur. Útkoman úr kosningunum var hins vegar verri en hún hafði verið árið á undan og flokkurinn missti tvo þingmenn.“

Þar á meðal var Benedikt sem missti þingsæti sitt fyrir norðan. Þá hætti Þorsteinn Víglundsson á þingi og í hans stað kom varaþingmaðurinn Þorbjörg Gunnlaugsdóttir. „Hún hefur verið áberandi og öflugur þingmaður fyrir Viðreisn. Inn kemur einnig nýr varaformaður, Daði Már Kristófersson, sem er þó ekki þingmaður,“ segir Stefanía.

Ekki nógu mörg pláss

„Vandinn sem blasti því við er að það eru fjögur þingsæti með fjórum þingmönnum sem vilja verja sín sæti og svo Benedikt, fyrrum formaður og einn af stofnendum flokksins, sem gerði kröfu um að fá öruggt þingsæti á höfuðborgarsvæðinu og nýi varaformaðurinn, Daði Már,“ segir Stefanía og bætir við að þar sé fylgi flokksins einna sterkast.

„Flokkurinn var að hluta til stofnuð í kringum málefni en eins og með mörg framboð þá er þetta líka spurning um persónur. Þetta er tiltölulega fámennur hópur og ef það slettist upp á vinskapinn þá getur orðið ansi biturt. Benedikt telur að honum hafi verið sýnd mikil óvirðing en það hefur líklega verið kalt mat uppstillingarnefnd að listinn yrði sigurstranglegri með aðra í forystu. Benedikt lætur hins vegar ekki ganga framhjá sér þegjandi og hljóðlaust.“

Stefanía segir það líklega verða mikinn skell fyrir Viðreisn ef Benedikt kæmi með eigið framboð á þingkosningar í haust. „Eitthvað gæti Benedikt tekið fylgi af þeim [Viðreisn] en það er náttúrulega vont allt svona umtal sem grefur undan trúverðugleika forystunnar.“

„Það verður áhugavert að fylgjast með framvindunni,“ segir Stefanía.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert