Vinir Kópavogs skjóta fast á bæjaryfirvöld

Hópur sem kallar sig Vini Kópavogs skýtur föstum skotum á …
Hópur sem kallar sig Vini Kópavogs skýtur föstum skotum á bæjaryfirvöld. mbl.is/Hjörtur

Hópur sem kallar sig Vini Kópavogs kallar eftir því að bæjarstjórn Kópavogs endurskoði afstöðu sína til skipulags í miðbæ bæjarins á Fannborgarreit og Traðarreit vestur, sem samþykkt var í bæjarstjórn 25. maí.

„Við erum hópur Kópavogsbúa sem hefur verið í samskiptum á netinu frá því í fyrrahaust. Meiningin var að koma saman fyrr en Covid-fárið hindraði það,“ segir Tryggvi Felixson, Kópavogsbúi sem sendi út yfirlýsinguna fyrir hönd hópsins.

Ákveðið hefur verið að stofna formlegt félag til þess að veita bæjaryfirvöldum aðhald.

Tryggvi Felixson Kópavogsbúi segir hópinn hafa spjallað saman um málefni …
Tryggvi Felixson Kópavogsbúi segir hópinn hafa spjallað saman um málefni bæjarins síðan í fyrrahaust.

Hópnum þykir starfsmenn bæjarins aðallega hafa verið að þjóna sérstökum hagsmunum í stað þess að sinna hefðbundnum skyldum, að sögn Tryggva.

Hvaða hagsmunir eru það?

„Það sem gerist er að bæjarfélagið selur eignir bæjarfélagsins, meðal annars félagsheimilis, til félags vorið 2019. Þetta félag hefur skiljanlega mikinn hug á að ávaxta sitt og bærinn segir einfaldlega: „Við hjálpum ykkur að græða á þessum viðskiptum“.“

Í yfirlýsingunni segir að samráð bæjaryfirvalda við íbúa á svæðinu og við Kópavogsbúa almennt hafi verið algjörlega ófullnægjandi. Verður hún afhent forseta bæjarstjórnar Kópavogs, Margréti Friðriksdóttur, klukkan tólf í dag, fimmtudag, við Molann, fundarsal bæjarstjórnar Kópavogs. 

Bæjaryfirvöld megi búast við deilum og málaferlum

„Bæjaryfirvöld veittu þeim sem hyggjast hagnast fjárhagslega á lóðarréttindum heimild til að vinna beint að gerð skipulagsins en sjónarmið íbúa á svæðinu voru fyrir borð borin. Sjái bæjaryfirvöld ekki að sér má búast við löngum deilum og málaferlum sem munu valda angist íbúa á skipulagssvæðinu og ómælanlegum skaða fyrir bæjarlífið,“ segir í yfirlýsingu hópsins.

Í nýjum miðbæ þurfi mannvirki að taka mið af veðurfarsskilyrðum og sólargangi og þar eigi fjölbreytt mannlíf og rekstur að geta þrifist í skjóli og birtu þegar unnt er. Samþykkt tillaga bæjarstjórnar uppfylli á engan hátt væntingar Kópavogsbúa um slíkan bæ.

„Borgarlínan skapar möguleika sem þarf að nýta, en ekki misnota í nafni „markmiða um þéttingu byggðar“. Það sjónarmið þjónar auðvitað fyrst og fremst byggingarfyrirtækjum sem hafa eðli málsins samkvæmt eingöngu fjárhagsleg hagnaðarsjónarmið að leiðarljósi.

Vel á þriðja hundrað manns búa við og á framkvæmdasvæðinu og áform bæjarstjórnar fela í sér afar mikla röskun á búsetuskilyrðum þeirra. Húseignir glata verðmæti sínum, niðurrif og framkvæmdir munu hindra eðlilegt aðgengi þeirra að heimilum sínum um margra ára skeið,“ segir þar enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert