Fimmtán blaðamannafundir kostuðu sjö milljónir

Blaðamannafundirnir hafa kostað rúmar sjö milljónir.
Blaðamannafundirnir hafa kostað rúmar sjö milljónir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þeir fimmtán blaðamannafundir sem ríkisstjórnin hefur haldið vegna viðbragða við kórónuveirufaraldrinum hafa samtals kostað 7.079.944 krónur. 

Þetta kemur fram í svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurn Helgu Völu Helgadóttur þingmanns Samfylkingar. Um er að ræða blaðamannafundi sem haldnir hafa verið frá 20. febrúar til dagsins í dag.

Mestur kostnaður var við leigu á aðstöðu, tækjaleigu og tæknilegri þjónustu, 6.653.537 krónur, en 106.407 krónur fóru í táknmálsþjónustu og 320.000 krónur í ljósmyndun.

Ekki kemur fram hvaða tilgangi ljósmyndun á vegum ríkisins þjónaði.

Katrín, Bjarni og Áslaug sátu flesta fundi

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var viðstödd alla fimmtán fundina en Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra voru á átta fundum. 

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra var á sjö fundum, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra á sjö fundum en Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á sex fundum.

Þá var Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra á fjórum fundum, Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra á tveimur fundum og Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra einnig á tveimur fundum. 

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra voru sjaldnast á fundunum og sátu þeir hvor sinn fundinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert